Viðskipti innlent

Spá því að verðbólga fari úr 7,6 í 8,4 prósent

Eiður Þór Árnason skrifar
Greining Íslandsbanka á von á því að verðbólgan nái hámarki í haust. 
Greining Íslandsbanka á von á því að verðbólgan nái hámarki í haust.  Vísir/Vilhelm

Greining Íslandsbanka spáir 8,4% verðbólgu í júnímánuði en tólf mánaða verðbólga mældist 7,6% í maí og hefur ekki mælst svo mikil frá því í mars 2010. Gangi spá bankans eftir væri um að ræða 1,0% hækkun á vísitölu neysluverðs frá fyrri mánuði.

Áfram vegur innflutt verðbólga og hækkandi íbúðaverð þungt í hækkun vísitölunnar. Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir í bráðabirgðaspá að töluverð hækkun eldsneytisverðs og flugfargjalda sé helsta ástæða þess að verðbólga aukist í júní. Verðbólgan nái toppi í ágúst þegar hún mælist 8,8% en mikil óvissa ríki um stöðuna og aðstæður séu fljótar að breytast.

„Íbúðaverð heldur áfram að hækka samkvæmt spá okkar. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, hefur hækkað um ríflega 10% frá ársbyrjun. Við spáum því að liðurinn hækki um 2,2% á milli mánaða.“

Íbúðaverð haldi áfram að hækka

Að sögn Greiningar Íslandsbanka virðist ekkert lát vera á hækkunum íbúðaverðs og útlit fyrir að á næstu mánuðum haldi verð áfram að hækka. Bundnar séu vonir við að markaðurinn fari að róast þegar líður á árið með hækkandi vöxtum og auknu framboði nýrra íbúða.

Fyrir utan húsnæðisliðinn er það liðurinn ferðir og flutningar sem vegur þyngst og spáir Greining Íslandsbanka að hann hækki um 2,5% milli maí og júní. Þar muni mestu um eldsneytisverð sem hækki um 6,7%. Á sama tíma hækkar húsnæðisliðurinn um 2,2% milli mánaða, samkvæmt spá bankans.

Í skammtímaspá Greiningar Íslandsbanka er gert ráð fyrir 0,4% hækkun verðbólgu í júlí, 0,6% í ágúst og 0,4% í september. Gangi sú spá eftir mælist verðbólga 8,7% í september og er gert ráð fyrir að hún nái toppi eftir það leyti og taki svo að hjaðna. Verðbólga muni fyrst hjaðna mjög hægt en hraðar þegar líða tekur á næsta ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×