Viðskipti innlent

Ferða­gleði Ís­lendinga birtist í met­korta­veltu er­lendis

Eiður Þór Árnason skrifar
Greinilegt er að Íslendingar eru að á ferð og flugi eftir heimsfaraldur. 
Greinilegt er að Íslendingar eru að á ferð og flugi eftir heimsfaraldur.  Getty

Heildarvelta innlendra greiðslukorta í verslunum og þjónustu erlendis nam rúmum 21,5 milljörðum króna í apríl og hefur ekki verið hærri frá því að mælingar hófust árið 1997. Jókst veltan um tæpa 12,4 milljarða frá sama tíma árið 2021.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV) en þessi þróun helst í hendur við greinilega aukningu í utanlandsferðum Íslendinga. Ferðamálastofa greindi frá því á föstudag að brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli hafi ekki mælst jafn margar í maí frá því að mælingar hófust. 

Alls voru brottfarir Íslendinga 65 þúsund talsins og sló þar með met frá maí 2018 þegar brottfarir voru tæplega 63 þúsund. Núna í lok maí höfðu brottfarir Íslendinga frá Keflavíkurflugvelli mæst 200 þúsund talsins það sem af er ári eða um og yfir 80% af brottförum á sama tímabili árin 2018 og 2019.

Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam rúmum 19 milljörðum króna í maí og jókst um 35% frá því í apríl. Samkvæmt RSV var hlutfall erlendrar kortaveltu af heildarkortaveltu á Íslandi 17,9% í maí en sama hlutfall var tæp 22,3% í maí 2019. 

Ferðamenn frá Bandaríkjunum voru ábyrgir fyrir 37,5% af allri erlendri kortaveltu hérlendis í maí en Þjóðverjar koma næstir með 7,6% og svo Bretar með 7,1%.

Fréttin hefur verið uppfærð. Áður var fjallað um að met í innlendri kortaveltu erlendis hafi fallið í maí en það var raunverulega í apríl. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×