Viðskipti innlent

Ölgerðin hringd inn í Kauphöllina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Magnús Harðarsson, forstjóri Kauphallarinnar, með bjölluna góðu.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Magnús Harðarsson, forstjóri Kauphallarinnar, með bjölluna góðu. Vísir/Einar

Ölgerðin er formlega orðið nýjasta fyrirtækið á Aðalmarkaði Kauphallarinnar. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri félagsins, hringdi félagið inn á markað í morgun.

Tæplega sjö þúsund hluthafar bættust í hluthafahóp Ölgerðarinnar eftir hlutafjárútboð félagsins sem lauk 27. maí síðastliðinn

Hefð er fyrir því að forstjórar nýrra félaga hringi félögin inn á markað á fyrsta degi skráningar í Kauphöllinni, og á því var engin breyting í morgun þegar Andri Þór hringdi bjöllunni í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar.

Rúmlega fjórföld eftirspurn var eftir hlutafé í fyrirtækinu þar sem almenningur keypti á genginu 8,9 krónur á hlut og stærri fjárfestar buðu 10,03 krónur á hlut. Við opnun markaða var gengi félagsins 10,04 krónur.

Stærstu hluthafarnir áfram þeir stærstu eftir útboð

Búið er að birta lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Ölgerðarinnar. Þar má sjá að Horn III er ennþá stærsti hluthafi félagsins eftir skráningu með 17,6 prósent hlut. Alls átti félagið 25,1 prósent hlut fyrir útboðið.

Horn III er framtakssjóður með um þrjátíu hluthafa sem meðal annars eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og fagfjárfestar.

Félagið Sindrandi er næst stærsti hluthafinn með 13,3 prósent hlut. Félagið hélt á 14,1 prósent hlut fyrir skráningu. Félagið er í eigu Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur.

Akur ÖES er þriðji stærsti hluthafinn með 12,8 prósent hlut. Fyrir skráningu átti félagið 18,2 prósent. Um er að ræða framtakssjóð sem er að mestu í eigu íslenskra lífeyrissjóða.

OA eignarhaldsfélag, félag í eigu Andra Þórs, for­stjóri Ölgerðarinnar, og Októ Einarssonar, stjórn­arformanns Ölgerðarinnar, á eftir skráningu 11,3 prósent hlut en hélt á 16,1 prósent hlut fyrir útboð.

Aðrir hluthafar eiga minna en sjá má listann yfir tuttugu stærstu hluthafa hér. Samtals eiga þeir um 81,3 prósent hluta í félaginu, aðrir hluthafar eiga 18,7 prósent.


Tengdar fréttir

Í skýjunum með að hafa fært stóran hluta fyrir­tækisins í eigu þjóðarinnar

Tæplega sjö þúsund nýir hluthafar hafa bæst í hóp eigenda Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar eftir hlutafjárútboð fyrirtækisins sem lauk á föstudag. Rúmlega tvöföld eftirspurn var eftir hlutafé í fyrirtækinu þar sem almenningur keypti á genginu 8,9 krónur á hlut og stærri fjárfestar buðu 10,03 krónur á hlut.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×