Körfubolti

Boston Celtics leiðir úr­slita­ein­vígið þökk sé mögnuðum fjórða leik­hluta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigur í fyrsta leik og það í San Francisco.
Sigur í fyrsta leik og það í San Francisco. EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO

Boston Celtics leiðir 1-0 gegn Golden State Warriors í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar. Eftir jafnan fyrri hálfleik virtist sem Stríðsmennirnir væru betur stemmdir og leiddu þeir með allt að 15 stigum í þriðja leikhluta. Ótrúlegur fjórði leikhluti tryggð Boston hins vegar 120-108 sigur.

Gríðarleg spenna var fyrir leik kvöldsins í San Francisco, bæði Vestanhafs sem og hér heima þar sem splæst var í veglegestu NBA-útsendingu Íslandssögunnar. Segja má að fyrsti leikur hafi ekki ollið neinum vonbrigðum.

Stephen Curry kom vel stemmdur til leiks og setti niður sex þriggja stiga körfur í fyrsta leikhluta. Flestir þeirra langt frá þriggja stiga línunni. Boston lét það ekki á sig fá og hélt í við sjóðandi heitan Curry.

Stríðsmennirnir komust allt að tíu stigum yfir í öðrum leikhluta en náðu ekki að hrista Boston af sér og Boston var yfir er flautað var til hálfleiks, 56-54. Aftur var það Golden State sem byrjaði betur eftir hálfleikshléið. Liðsfélagar Curry voru þarna farnir að setja niður hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru og útlitið svart hjá Boston.

Munurinn varð mestur 15 stig en það er eins og Boston viti ekki alveg hvenær eða hvernig eigi að leggja árar í bát. Samheldni, samstaða og gríðarleg gæði Boston-liðsins skinu í gegn á þessum tímapunkti og um miðjan fjórða leikhluta var staðan jöfn 103-103.

Eftir það áttu Stríðsmennirnir ekki möguleika. Gestirnir frá Boston tóku 17-0 áhlaup á meðan heimamenn skoruðu aðeins fimm stig á síðustu fimm mínútum leiksins. Fór það svo að Boston Celtics vann á endanum örugglega, lokatölur 108-120 og gestirnir því komnir 1-0 yfir í einvíginu.

Hjá Golden State var Curry stigahæstur með 34 stig ásamt því að gefa 5 stoðsendingar og taka 5 fráköst. Þar á eftir kom Andrew Wiggins með 20 stig og 5 fráköst á meðan Klay Thompson skoraði 15 stig, gaf 3 stoðsendingar og tók 2 fráköst.

Hinn 36 ára gamli reynslbolti Al Horford var að spila sinn fyrsta leik í úrslitum deildarinnar og naut sín í botn. Horford skoraði 26 stig og var stigahæstur í liði Boston ásamt því að taka 6 fráköst og gefa 3 stoðsendingar.

Jaylen Brown kom þar á eftir með 24 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Derrick White skoraði óvænt 21 stig og Marcus Smart gerði 18 stig. Jayson Tatum skoraði aðeins 12 stig en hann gaf 13 stoðsendingar og tók 5 fráköst.

Það rigndi hreinlega þriggja stiga körfum í nótt en alls skoruðu liðin 40 slíkar.

Næsti leikur í einvígi liðanna fer fram á sunnudagskvöld. Upphitun hefst 23.30 en leikurinn sjálfur á miðnætti. Allt í beinni á Stöð 2 Sport 2.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×