Viðskipti innlent

Eggert hættir sem forstjóri Festar

Eiður Þór Árnason skrifar
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar. Festi

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festar hf. hefur sagt starfi sínu lausu frá og með 1. ágúst næstkomandi. Gert hefur verið samkomulag um starfslok Eggerts en Festi rekur meðal annars Krónuna, Elko og N1.

Fram kemur í tilkynningu til Kauphallar að stjórn fyrirtækisins hafi átt farsælt samstarf við Eggert undanfarin ár í gegnum mikinn uppbyggingarfasa.

„Ég hóf störf hjá Festi áður N1 í júní 2011 sem fjármálastjóri eftir nauðasamning sem var gerður var í maí það ár. Félagið var skráð í kauphöll í desember 2013 og hefur sú vegferð gengið vel. Mikilvægt skref var síðan stigið þegar við keyptum gamla Festi þ.e. ELKO, Krónuna, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel árið 2018 og voru það stefnumótandi og mikilvæg kaup til að undirbúa félagið að orkuskiptum og þeim breytingum sem eru að verða í okkar samfélagi,“ segir Eggert í tilkynningu.

„Ég hef verið lánssamur að vinna með frábæru samstarfsfólki á þessum árum sem hafa gert Festi og dótturfélög af því sem þau er í dag. Ég mun sakna þess að vinna með þessu fólki en er einnig spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér.“

Leitt félagið í gegnum vaxtartímabil

Guðjón Reynisson, stjórnarformaður Festar, þakkar forstjóranum fyrir góð störf síðastliðin ellefu ár, þar af í sjö ár sem forstjóri. 

„Hann hefur leitt það í gegnum mikið vaxtar- og samþættingartímabil og skilar því nú af sér traustu og vel í stakk búnu að takast á við hin gríðarstóru verkefni tengd m.a. orkuskiptum og vaxandi þátttöku í daglegu lífi hins mikla fjölda viðskiptavina þess. Ég óska Eggerti velfarnaðar við þau verkefni sem hann mun nú snúa sér að og þakka gott samstarf á liðnum árum.”

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.