Innherji

Stefnt að útboði Nova í næstu viku og vilja selja fyrir sjö til níu milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Margrét Tryggvadóttir hefur verið forstjóri Nova frá árinu 2018.
Margrét Tryggvadóttir hefur verið forstjóri Nova frá árinu 2018. Aðsend

Stefnt er að því að hlutafjárútboð Nova muni hefjast í næstu viku en stjórnendur og ráðgjafar fjarskiptafyrirtækisins, sem hafa fundað með fjárfestum og markaðsaðilum í vikunni, horfa þar til þess að selja hluti í félaginu fyrir á bilinu um sjö til níu milljarða króna, samkvæmt heimildum Innherja.

Verið er að leggja lokahönd á skráningarlýsingu Nova en vonir standa til að fjármálaeftirlit Seðlabankans muni samþykkja hana síðar í þessari viku.

Lágmarksgengið sem verður ákvarðað fyrir almenna fjárfesta í útboðinu, að sögn viðmælenda Innherja sem hafa átt fundi með stjórnendateymi Nova, verður á sömu slóðum og þegar þrír framtakssjóðir í rekstri Landsbréfa, Stefnis og Íslandssjóða fóru fyrir kaupum fjárfesta á um 36 prósenta hlut í félaginu í apríl fyrir samtals um sjö milljarða króna.

Miðað við það verður allt hlutafé Nova verðmetið á um 19,5 milljarða í útboðinu – til samanburðar er markaðsvirði fjarskiptafyrirtækisins Sýnar í dag rúmlega 13,8 milljarðar – og á bilinu um 35 til 45 prósenta hlutur boðin til sölu. Endanleg niðurstaða þar mun ráðast af því hversu mikil eftirspurnin verður af hálfu fjárfesta.

Afkomuspá Nova fyrir þetta ár gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verði á bilinu um 3,35 til 3,5 milljarðar króna. Sölutekjur Nova á árinu 2021 voru um 12 milljarðar króna.

Að loknu hlutafjárútboði verður Nova skráð á Aðalmarkað í Kauphöllinni en miðað við núverandi áætlanir ætti fyrsti dagur viðskipta með bréf í félaginu að vera upp úr miðjum júní. Það er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með útboði og skráningu fjarskiptafélagsins.

Hinir nýju fjárfestar, sem komu inn í hlutahóp Nova í síðasta mánuði, stóðu að baki 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu – hún var sögð til að styðja við frekari fjárfestingar á 5G fjarskiptakerfinu og styrkja efnahagsreikninginn – auk þess sem hluthafar Nova seldu þeim hluta af sínum bréfum. Fyrir þá fjárfestingu var félagið Nova Acquisition, sem er í eigu bandaríska framtakssjóðsins Pt Capital, langsamlega stærsti hluthafinn með 89 prósenta eignarhlut en aðrir hluthafar eru lykilstarfsmenn Nova.

Pt Capital eignaðist fyrst 50 prósenta hlut í fjarskiptafyrirtækinu árið 2017 en sjóðurinn keypti síðan eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst í fyrra og eignaðist við það nærri allt hlutafé Nova.

Nokkur óvissa hefur verið að undanförnu hvort farið yrði í hlutafjárútboð Nova á þessum tímapunkti í ljósi krefjandi markaðsaðstæðna. Flest skráð félög hafa lækkað talsvert á síðustu vikum og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er niður um 11 prósent á einum mánuði. Frá áramótum hefur hún fallið um liðlega 21 prósent, meira en margar aðrar hlutabréfavísitölur í löndunum í kringum okkur.

Eftir góða niðurstöðu í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar í liðinni viku var hins vegar ákveðið að halda sig við áður boðuð áform um að ráðast í útboð á skráningu á Nova á fyrri árshelmingi þessa árs. Rúmlega fjórföld eftirspurn reyndist í útboði Ölgerðarinnar – samtals bárust 6.600 áskriftir fyrir samanlagt meira en 32 milljarða – þar sem að lokum var seldur 29,5 prósenta hlutur fyrir 7,9 milljarða.

Áform um útboð og skráningu Nova hafa staðið yfir í langan tíma en félagið upplýsti fyrst um það opinberlega í lok síðasta mánaðar að ákveðið hefði verið að hefja undirbúning að því skrefi.

Nova, sem er eitt af stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, var stofnað árið 2006 og samtals starfa um 150 manns hjá félaginu á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Frá árinu 2015 hefur árlegur tekjuvöxtur Nova verið að jafnaði um 8,1 prósent og EBITDA vöxtur yfir sama tímabil að meðaltali um 7,9 prósent á ári.

Í desember í fyrra seldi Nova óvirkan fjarskiptabúnað sinn til bandaríska félagsins Digital Bridge, rétt eins og Sýn gerði sömuleiðis, fyrir samtals um 5,3 milljarða króna. Samhliða því var undirritaður 40 ára leigusamningur um eignirnar til að tryggja staðsetningar fyrir fjarskiptakerfi félagsins.


Tengdar fréttir

Nova undir­býr skráningu á markað

Nova hefur ákveðið að hefja undirbúning á skráningu hlutabréfa félagsins á Aðalmarkað Nasdaq Iceland. Stefnt að skráningu á fyrri helmingi þessa árs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×