Innherji

Bankasýslan taldi sér „skylt“ að upplýsa um „læk“ á færslu um útboð ÍSB

Hörður Ægisson skrifar
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar.
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar. fréttablaðið/stefán

Bankasýslan ríkisins taldi sér „skylt“ að afhenda Ríkisendurskoðanda upplýsingar um að Hersir Sigurgeirsson, dósent við Háskóla Íslands, hefði sett „læk“ við færslu á Facebook þar sem framkvæmd útboðs við sölu á stórum hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka var harðlega gagnrýnd og eins störf Bankasýslunnar.

Þetta kemur fram í bréfi Bankasýslunnar, undirritað af Jóni Gunnari Jónssyni, forstjóra stofnunarinnar, til Ríkisendurskoðanda þann 17. maí síðastliðinn en Innherji óskaði eftir að fá bréfið afhent.

Hersir, sem Ríkisendurskoðun hafði nokkrum vikum áður fengið til að vera ráðgjafi við úttekt stofnunarinnar á útboði Íslandsbanka, greindi frá því á Facebook-síðu sinni fyrr í þessum mánuði að hann hefði ákveðið að láta af ráðgjafastörfum sínum vegna bréfs Bankasýslunnar. Sakaði hann Bankasýsluna um að með bréfaskrifum sínum teldi hún sig „geta notað þau til að kasta rýrð á úttekt Ríkisendurskoðunar ef einhverjar niðurstöður hennar verða stofnuninni ekki að skapi.“

Í bréfi Bankasýslunnar, sem er aðeins ein blaðsíða að lengd ásamt fylgiskjali með skjáskoti af færslunni sem Hersir setti „læk“ við, er ekki farið fram á að Hersir láti af störfum sínum við úttekt Ríkisendurskoðunar á söluferlinu. Þá segir sömuleiðis ekkert um það í bréfinu að Bankasýslan telji Hersir hafa gert sig vanhæfan með því að „læka“ færsluna.

Hersir sagðist hafa fengið símtal frá Ríkisendurskoðanda þann 18. maí þar sem hann var upplýstur um bréf Bankasýslunnar en stofnunin segist í því hafa fengið „ábendingu“ um að hann hefði „lækað“ færslu þar sem kom fram gagnrýni á útboðið.

Umrædd færsla, eins og Innherji hefur áður sagt frá, var skrifuð af Marinó G. Njálssyni, sem var um tíma í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna eftir bankahrunið, í byrjun þessa mánaðar og fjallaði hún um kynningu á útboði Íslandsbanka sem Bankasýslan hélt fyrir tvær þingnefndir dagana 21. og 24. febrúar.

„Haldi einhverjir að glæran veiti Bankasýslunni syndaaflausn þá fer því fjarri,“ sagði meðal annars í færslu Marinós og vísaði hann þar til glæru þar sem tilboðsfyrirkomulag útboðsins var útskýrt. „Ef eitthvað er, þá sannar glæran að aðferðin var illa kynnt, var illa skilgreind og bauð upp á það klúður sem varð.“

Hersir, sem hefur jafnframt að undanförnu starfað sem ráðgjafi fyrir Seðlabanka Íslands, sagðist í færslu sinni á Facebook hafa tekið að sér þetta verkefni til að leggja sitt af mörkum til að gera úttektina betri. „Þegar forstjóri og starfsmenn Bankasýslunnar eru farnir að verja tíma sínum í að rekja ferðir mínar á samfélagsmiðlum og tilkynna skriflega, rafrænt undirritað, um „like finnst mér þó ástæða til að staldra við. Ég kann ekki við slíkt eftirlit,“ sagði Hersir.

Það er alvarlegt mál, bætti hann við, þegar starfsmenn ríkisstofnunar telja eðlilegt að leggjast í rannsókn á skoðunum ráðgjafa óháðra úttektaraðila.

Í bréfi Bankasýslunnar kemur fram að stofnunin „hafi fengið ábendingu“ um færslu Marinós um útboðið og að Hersir hafi sett „læk“við hana. Þá segir Bankasýslan að hún hafi átt fund með Ríkisendurskoðun þann 5. maí síðastliðinn og að á þeim fundi hafi komið fram að Hersir hefði verið ráðinn sem sérstakur sérfræðingur til aðstoðar við úttekt á útboði og sölu ríkissjóðs á hlutum í Íslandsbanka.

Fjármála- og efnahagsráðherra fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að stofnunin gerði úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka 22. mars hefði samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum. Fram hefur komið að Ríkisendurskoðun stefni að því að klára þá vinnu í lok næsta mánaðar.

Þá hefur Fjármálaeftirlit Seðlabankans einnig til rannsóknar tiltekna þætti í tengslum við útboðið og en sé athugun beinist að starfsháttum söluráðgjafa fjármálafyrirtækja, meðal annars þátttöku starfsmanna þeirra í útboðinu og hvort fjárfestar hafi réttilega verið metnir hæfir, en ekki störfum Bankasýslunnar.


Tengdar fréttir

Þing­nefndir fengu ýtar­lega kynningu á áformum Banka­sýslunnar

Bankasýsla ríkisins gerði bæði efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir því hvernig tilboðsfyrirkomulagið, sem var notað við síðustu sölu ríkissjóðs á hlutafé í Íslandsbanka, virkaði og hvaða markmiðum væri hægt að ná með þessu fyrirkomulagi í samanburði við almennt útboð. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.