Viðskipti innlent

Ferða­menn, ferða­lög og einka­neysla knýja mikinn hag­vöxt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Erlendir ferðamenn eru aftur komnir á stjá hér á landi.
Erlendir ferðamenn eru aftur komnir á stjá hér á landi. Vísir/Vilhelm

Hagstofa Íslands áætlar að landsframleiðsla hafi aukist að raungildi um 8,6 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins, borið saman við sama tímabil í fyrra.

Þetta kemur fram í þjóðhagsreikningum Hagstofunnar, sem birtir voru í dag. Þar kemur fram að áætlað sé að einkaneysla hafi aukist um 8,8 prósent að raungildi á tímabilinu borið saman við sama tímabil fyrra árs.

Segir Hagstofan að það skýrist að umtalsverðu leyti af auknum ferðalögum og neysluútgjöldum Íslendinga erlendis á tímabilinu.

Þá mældist einnig umtalsverð aukning í kaupum heimila á nýjum bifreiðum á tímabilinu en á móti mældist samdráttur í öðrum neysluflokkum svo sem áfengi, húsbúnaði og innréttingum.

Aukning í útfluttri þjónustu mældist 80,8 prósent á tímabilinu sem skýrist fyrst og fremst af mikilli aukningu í komum erlendra ferðamanna til Íslands.

Samkvæmt talningu á erlendum farþegum um Keflavíkurflugvöll nam fjöldi þeirra um 245 þúsund á tímabilinu borið saman við tæplega 12 þúsund á sama tímabili árið 2021.

Talsverður vöxtur mældist einnig í þjónustuinnflutningi eða 68,7 prósent sem skýrist að verulegu leyti af auknum ferðalögum Íslendinga til útlanda eftir mikinn samdrátt á árunum 2020 og 2021 vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Vöxtur í inn- og útflutningi þjónustu hefur ekki mælst meiri frá því að ársfjórðungslegar mælingar landsframleiðslu hófust hér á landi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×