Handbolti

Meyr eftir kveðjuleikinn: „Brotnaði lúmskt niður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Þorsteinn Ólafsson kveður Val sem þrefaldur meistari.
Einar Þorsteinn Ólafsson kveður Val sem þrefaldur meistari. vísir/Hulda Margrét

Einar Þorsteinn Ólafsson lék sinn síðasta leik fyrir Val þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á ÍBV, 30-31, í Eyjum. Einar er á förum til Fredericia í Danmörku.

„Maður gaf allt í þetta og ég er ekkert eðlilega ánægður. Mér gæti ekki liðið betur en að klára tímabilið svona,“ sagði Einar við Vísi í leikslok.

Valur vann alla titlana sem í boði voru á tímabilinu og komst þannig í fámennan hóp liða sem hafa unnið þrennuna svokölluðu.

„Við gefum aldrei eftir. Til að vinna svona marga titla verður viðmiðið að vera hátt á hverri æfingu og í hverjum leik,“ sagði Einar.

Valur vann tíu marka sigur á ÍBV í fyrsta leik úrslitaeinvígisins en næstu þrír leikir voru hnífjafnir.

„Þegar þeir eru með þessa stemmningu með sér eru þeir svo ótrúlega góðir. Þeir vinna svo vel saman með línumönnunum og eru með frábæra leikmenn. Ég veit ekki alveg hvað skildi að. Við áttum bara smá eftir í lokin,“ sagði Einar. „Við byrjuðum oft vel í leikjum og náðum forskoti en annars munaði svo litlu.“

Einar segir að ekki hafi verið hægt að kveðja Val á betri hátt en þetta.

„Eins og ég sagði er ég ótrúlega ánægður. Þetta hefði ekki getað endað betur. Ég er sérstaklega glaður, þetta er síðasti leikurinn minn og ég er mjög þakklátur fyrir allt,“ sagði Einar.

„Ég brotnaði lúmskt niður. Ég hef aldrei fundið svona eftir titil. Ég hlakka til að fara í nýja liðið en þetta var bara frábært.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×