Handbolti

Ísland á HM í stað Rússlands og klístrið bannað

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið var efst á lista varaþjóða eftir góðan árangur á síðasta ári.
Íslenska landsliðið var efst á lista varaþjóða eftir góðan árangur á síðasta ári. HSÍ

Íslenska U18-landsliðið í handbolta kvenna öðlaðist í dag sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Norður-Makedóníu í sumar.

Ísland var fyrsta varaþjóð inn á mótið og nú er orðið ljóst að íslenska liðið kemur inn í stað Rússlands sem rekið var úr keppni vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Á mótinu taka 32 lið þátt og þar af er helmingurinn frá Evrópu eða sextán lönd.

Dregið verður í riðla í byrjun júní og þá skýrist hvaða liðum íslensku stelpurnar mæta en þær voru skráðar sem fyrsta varaþjóð vegna góðs árangurs á mótum á síðastliðnu ári, samkvæmt frétt á vef HSÍ.

Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson eru þjálfarar íslenska liðsins og munu þeir velja 16 leikmenn á mótið auk fjögurra varamanna. Tilkynnt verður um valið 7. júní og æfingar liðsins hefjast 17. júlí áður en haldið verður til Norður-Makedóníu en mótið fer fram dagana 30. júlí til 10. ágúst.

Fyrsta mótið án harpix

Á vef handbolta.is er bent á að um sé að ræða fyrsta mótið þar sem harpix er bannað. Leikið verður með nýja tegund af boltum sem eiga að gera óþarft að nota klístur til að ná gripi á boltanum og mun stór sending af slíkum boltum vera á leið til landsins svo að stelpurnar geti vanist því að spila með þá.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×