Körfubolti

Þórsarar fá besta unga leikmann fyrstu deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Ágúst Halldórsson ásamt Jóhönnu Hjartardóttur, formanni körfuknattleiksdeildar Þórs, og Lárusi Jónssyni, þjálfara liðsins.
Daníel Ágúst Halldórsson ásamt Jóhönnu Hjartardóttur, formanni körfuknattleiksdeildar Þórs, og Lárusi Jónssyni, þjálfara liðsins. þór þ.

Daníel Ágúst Halldórsson, besti ungi leikmaður 1. deildar karla í körfubolta á síðasta tímabili, er genginn í raðir Þórs í Þorlákshöfn frá Fjölni. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Þórsara.

Daníel, sem er sautján ára leikstjórnandi, var með 14,3 stig, 5,4 fráköst og 5,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í 1. deildinni á síðasta tímabili. Hann hitti úr 50,6 prósent skota sinna inni í teig og 32,3 prósent úr þriggja stiga skotum.

Á lokahófi KKÍ í síðustu viku var Daníel valinn besti ungi leikmaður 1. deildarinnar. Hann var einnig í úrvalsliði deildarinnar.

Þór lenti í 2. sæti í Subway-deildinni á síðasta tímabili og tapaði 3-0 fyrir Val í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Þá komust Þórsarar í úrslit VÍS-bikarsins en töpuðu þar fyrir Stjörnumönnum.

Talsverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Þórs á undanförnum vikum. Daniel Mortensen er til að mynda farinn í Hauka og Ragnar Örn Bragason í ÍR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×