Skoðun

Valda­seta byggð á vondu lýð­ræði

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Ég skrifaði grein á Vísi fyrr í vikunni þar sem ég benti á hvernig mörg ákvæði íslenskra kosningalaga hygla stærri flokkum. Ég ætla að freista þess að vekja aftur athygli á þessu óréttlæti með því að fara með ykkur í gegnum allar borgarstjórnarkosningar frá 1930 og bera saman útdeilingu borgarfulltrúa milli flokka samkvæmt D’Hondt-reglunni sem notuð er hérlendis og hyglir stærri framboðum og Sainte-Laguë-aðferðinni sem beitt er á Norðurlöndum og hefur ekki sömu skekkju.

Þetta hljómar kannski óspennandi, en ferðalag um söguna með þeim D’Hondt og Sainte-Laguë er hörkuspennandi, full af óvæntum tíðindum.

Sjálfstæðismenn vinna meirihluta

Nýstofnaður Sjálfstæðisflokkur vann góðan sigur í kosningunum 1930, fékk 8 fulltrúa af 15 hvort sem við beitum D’Hondt eða Sainte-Laguë, Alþýðuflokkurinn fékk fimm fulltrúa og Framsókn tvo.

Í næstu kosningum buðu Kommúnistar og Þjóðernissinnar (Nasistar) fram og náðu Kommúnistar öðrum fulltrúanum af Framsókn. Sjálfstæðismenn féldu sínum 8 fulltrúum og Kratar 5. Aftur breytir engu hvora aðferðina við notum, D’Hondt eða Sainte-Laguë.

Árið 1938 vinna Sjálfstæðismenn á og fá níunda manninn samkvæmt D’Hondt en ekki samkvæmt Sainte-Laguë. D’Hondt flutti sem sé einn fulltrúa frá sameiginlegu framboði Krata og Kommúnista, sem fengu því 5 en ekki 6 fulltrúa. Framsókn var áfram með einn.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins fellur

Í kosningum 1942 missir Sjálfstæðisflokkurinn fylgi og hefði misst meirihluta sinn samkvæmt Sainte-Laguë. D’Hondt tryggði þeim hins vegar átta fulltrúa, 53% fulltrúa fyrir 48,7% atkvæða. Þetta voru fyrstu kosningar Sósíalistaflokksins, sem fékk fjóra menn kjörna. Kratar fengu þrjá en Framsókn missti sinn eina. Og það var D’Hondt að kenna, hann flutti Framsóknarmanninn yfir á Íhaldið, sem hélt þar með meirihluta.

Í kosningunum 1946 endurtekur leikurinn sig. Framsóknarmenn ná aftur inn manni, Sósíalistar halda sínum fjórum en nú tekur D’Hondt þriðja mann kratana og færir yfir á Sjálfstæðisflokkinn svo Íhaldið heldur meirihluta. Samkvæmt Sainte-Laguë hefði hann fallið ef svo má segja, en hann hefði í raun fallið fjórum árum fyrr. Mögulega hefði Framsókn myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokksmönnum frekar en Sósíalistum og Krötum. Við vitum auðvitað ekkert um það, þetta er hluti sögu sem við fengum ekki að lifa vegna þess að stóru flokkarnir settu leikreglurnar sem tryggðu þeim völdin.

Aftur fellur meirihlutinn

1950 bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig og hefði endurheimt meirihlutann sinn samkvæmt Sainte-Laguë en þurfti það ekki samkvæmt D’Hondt. Fulltrúar annarra flokka voru þeir sömu: Sósíalistar 4, Kratar 2 og Framsókn 1.

1954 missir Sjálfstæðisflokkurinn fylgi og hefði átt að missa meirihlutann en aftur kemur D’Hondt til bjargar. Nú tekur hann annan mann Þjóðvarnarflokksins sem náði góðu kjöri í sínum fyrstu borgarstjórnarkosningum, náði einum manni af Sósíalistum en hefði átt að ná öðrum af Íhaldinu. Annað var óbreytt: Kratar 2 og Framsókn 1.

1958, í tíð vinstri stjórnar í landsmálum vinnur Sjálfstæðisflokkurinn mikinn sigur, fær 10 fulltrúa samkvæmt D’Hondt þegar Sainte-Laguë hefði gefið flokknum 9. D’Hondt fellir Þjóðvarnarflokkinn út úr borgarstjórn á meðan Sainte-Laguë hefði haldið honum inni. Staða hinna flokkanna er: Sósíalistar 3, Kratar 1 og Framsókn 1.

Sjálfstæðismenn halda meirihlutanum 1962 en aftur færir D’Hondt þeim aukamann, nú frá Krötum. Þeir vinna því ekki sinn annan mann eins og Framsókn gerði. Sósíalistar halda sínum þremur.

Sundrung vinstrimanna var aldrei vandamálið

Samkvæmt Sainte-Laguë hefði Sjálfstæðisflokkurinn aðeins unnið meirihlutann í einum af næstu fjórum kosningum, árið 1974. Það hefði ekki tekist 1966 eða 1970 og örugglega ekki 1978, þegar meirihlutinn féll loksins samkvæmt D’Hondt. Þá höfðu Sjálfstæðismenn ríkt í Reykjavík óslitið frá 1930 eða í 48 ár.

Af þessum 48 árum hafði Sjálfstæðisflokkurinn sannarlega unnið kosningar og unnið fyrir valdasetu í 28 ár en í 20 ár sat flokkurinn í skjóli D’Hondt, útdeildingarkerfi sem hyglir stærri flokkum svo þeir fá hlutfallslega fleiri fulltrúa en atkvæðamagn þeirra segir til um. 1970 fékk flokkurinn 53,3% fulltrúa úr á 47,7% atkvæða.

Allan þennan tíma trúðu vinstrimenn að böl þeirra væri sundrung þeirra sjálfra þegar vandinn var kosningakerfið sem tók fulltrúa frá smærri framboðum og færði til stærri framboða. Í reynd færði kerfið fulltrúa frá vinstri flokkunum til Sjálfstæðisflokks.

Meirihlutinn sem féll hefði aldrei orðið til

Eftir 1978 gerist það ekki að D’Hondt hafi haldið meirihluta á lífi sem hefði átt að falla samkvæmt Sainte-Laguë. Á tímabili Davíðs Oddssonar nær Sjálfstæðisflokkurinn manni af Alþýðuflokknum bæði 1982 og 1986 með D’Hondt en það réð ekki úrslitum, stækkaði bara meirihlutann umfram tilefni.

Og á R-listatímabilinu voru línur skýrar, aðeins tveir flokkar að skipta á milli sín fulltrúum og engu breytti hvor aðferðin var notuð.

Árið 2006 færir D’Hondt annan mann Frjálslyndra yfir á Sjálfstæðisflokkinn sem gefur Sjálfstæðisflokknum færi á að mynda stjórn með einum manni Framsóknar. Þótt sá meirihluti hafi lifað skammt þá hafði D’Hondt þarna umtalsverð áhrif.

Næst hefur D’Hondt mikil áhrif 2018. Þá fellir D’Hondt Framsókn út úr borgarstjórn og tekur annan manninn af Sósíalistum og færir þessa menn til Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Sem gefur Samfylkingunni færi á að mynda meirihluta með Viðreisn, Pírötum og Vg.

Í kosningunum fyrr í mánuðinum var D’Hondt til friðs.

Spillingin skrifar söguna

Það sést á þessu að sú aðferð sem er í íslensku kosningalögunum og sem er frábrugðin þeirri sem notuð er á Norðurlöndunum hefur haft afgerandi áhrif á borgarmálin og pólitíkina. D’Hondt bjó til yfirburðastöðu Sjálfstæðisflokksins, færði honum mikil völd sem flokkurinn notaði til að deila út bitlingum til flokksmanna, sem aftur styrktu flokkinn svo hann gat hangið á völdunum.

Og D’Hondt bjó líka til þá hugmynd meðal vinstrimanna að þeir væru ávallt að skemma fyrir sjálfum sér. Þeir áttuðu sig ekki á að þeir voru að keppa í leik þar sem dómarinn dæmdi Sjálfstæðisflokknum ávallt í vil.

Þetta er óskeð saga sem við höfum farið í gegnum. Ef meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefði fallið strax 1942 hefði saga Reykjavíkur ekki bara orðið öðruvísi heldur pólitísk saga landsins alls.

Og þetta má orða öðru vísi: Saga okkar varð eins og var vegna þess að það var vitlaust gefið. Stóri flokkurinn var með forgjöf.

Svona er spillingin djúpstæð í samfélagi okkar. Hún er höfundur sögu okkar.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.