Viðskipti innlent

Óðinn snýr aftur í blaða­mennskuna

Eiður Þór Árnason skrifar
Óðinn Jónsson yfirgaf RÚV fyrir þremur árum.
Óðinn Jónsson yfirgaf RÚV fyrir þremur árum. Aðsend

Óðinn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri RÚV, hefur verið ráðinn blaðamaður hjá ferðamiðlinum Túrista. Óðinn kemur frá samskiptastofunni Aton.JL þar sem hann hefur starfað undanfarin ár sem ráðgjafi.

Þrettán ár eru frá því að ferðavefurinn Túristi var stofnaður af Kristjáni Sigurjónsson og hefur hann fram að þessu verið eini starfsmaður miðilsins. Óðinn gengur til liðs við Túrista um miðjan júní.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá miðlinum en Óðinn starfaði lengi hjá Ríkisútvarpinu sem fréttamaður og þáttastjórnandi, fréttamaður á Norðurlöndum, þingfréttamaður, fréttastjóri hljóðvarps og síðan fréttastofu RÚV.

Síðustu þrjú árin hefur Óðinn unnið hjá Aton.JL, einkum í tengslum við samskiptamál og fjölmiðlaráðgjöf fyrir stækkunarverkefni Isavia á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace.

Gott að fá einn reyndasta fjölmiðlamann landsins

„Mér þykir mikill fengur í Óðni, sem er í hópi reyndustu fjölmiðlamanna landsins, og ég er honum þakklátur fyrir að taka stökkið. Það verður spennandi að vinna með honum aftur en við ræddum um árabil ferðamál frá ýmsum hliðum vikulega á Morgunvakt Rásar 1, á meðan hann stýrði þættinum,” segir Kristján, ritstjóri og útgefandi Túrista, í tilkynningu.

Hann bætir við að sú ákvörðun að breyta Túrista í áskriftarvef hafi heppnast vel og lagt grunn að öflugri útgáfu. Fjölmiðlar í áskrift eigi allt undir færum og reyndum blaðamönnum og ráðning Óðins sé því mikilvægur liður í breikka efnistökin.

„Mér þykir þetta afar spennandi tækifæri. Ég held að áskriftarvefur eins og Túristi, sem leggur rækt við mikilvægt sérsvið, eigi framtíð fyrir sér. Kristján hefur unnið þrekvirki í sínu starfi en ég vonast til að styrkja vefinn. Það er auðvitað frábært að fá tækifæri til að spreyta sig aftur í blaðamennsku og ég er þakklátur fyrir það,” segir Óðinn.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.