Innherji

Kvika skilar 16 prósenta arðsemi og hækkar afkomuspá bankans

Hörður Ægisson skrifar
Uppfærð afkomuspá bankans fyrir næstu tólf mánuði hefur verið hækkuð upp í 8,7 til 9,7 milljarða króna sem samsvarar 19,9 til 22,2 prósenta arðsemi á eigið fé samstæðunnar.
Uppfærð afkomuspá bankans fyrir næstu tólf mánuði hefur verið hækkuð upp í 8,7 til 9,7 milljarða króna sem samsvarar 19,9 til 22,2 prósenta arðsemi á eigið fé samstæðunnar.

Hagnaður Kviku banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1.740 milljónum króna, sem var í samræmi við áætlanir á fjórðungnum, og arðsemi af efnislegu eigin fé félagsins fyrir skatta var 16,1 prósent.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Kviku en þar segir jafnframt að afkomuspá bankans fyrir næstu tólf mánuði hafi verið hækkuð upp í 8,7 til 9,7 milljarða króna sem samsvarar 19,9 til 22,2 prósenta arðsemi á eigið fé samstæðunnar. Fyrri afkomuspá bankans fyrir árið 2022 gerði ráð fyrir 8 til 9 milljarða króna hagnaði.

Þá hefur verið ákveðið að ráðast í kaup á eigin bréfum fyrir að hámarki þrjá milljarða króna sem bíður núna samþykkis Seðlabanka Íslands.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segist vera ánægður með fjórðunginn.

„Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst í því að fjölga og efla tekjustoðir félagsins. Markaðsaðstæður eru meira krefjandi en áður og því er sérstaklega ánægjulegt að sjá í uppgjörinu að sú stefna er að bera ávöxt og afkoma félagsins sé í samræmi við útgefna afkomuspá. Jafnframt er ánægjulegt að ný afkomuspá gerir ráð fyrir áframhaldandi bata í afkomu.“

Úr fjárfestakynningu Kviku banka.

Uppfærð afkomuspá bankans byggir meðal annars á þeim forsendum að TM, sem varð dótturfélag Kviku í mars í fyrra við samruna fyrirtækjanna, skili 6,8 prósenta arðsemi á fjárfestingaeignir og að samsett hlutfall tryggingafélagsins verði 95,2 prósent. Þá er jafnframt áætlað að lánabók Kviku muni nema 110 til 120 milljörðum króna en í lok fyrsta ársfjórðungs stóð hún í 83 milljörðum króna.

Fram kemur í uppgjöri Kviku að hreinar vaxtatekjur hafi numið 1.571 milljónum króna og aukist um 148 prósent frá sama tímabili fyrir ári. Má aukningu vaxtatekna helst skýra með stækkun og breyttri samsetningu lánasafns vegna samruna við Lykil fjármögnun, breyttri samsetningu lausafjáreigna ásamt hagstæðri þróun fjármagnskostnaðar.

Hreinar fjárfestingartekjur samstæðunnar námu 808 milljónum króna við „krefjandi aðstæður á eignamörkuðum,“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Þá voru hreinar þóknanatekjur 1.642 milljónir sem er 2,5 prósenta lækkun frá fyrra ári en rekstrarkostnaður var 3.165 milljónir sem var í samræmi við áætlanir.

Heildareignir samstæðunnar jukust um 16 prósent á fjórðungnum, eða sem nemur 40 milljörðum, og stóðu í 286 milljörðum í lok mars. Útlán til viðskiptavina jukust um rúma 11 milljarða króna á tímabilinu og námu 83 milljörðum króna í lok mars. Aukningin er að mestu til komin vegna kaupa á breska fasteignalánafyrirtækinu Ortus Secured Finance sem kláruðust í febrúar. Í kjölfar þeirra kaupa er starfsemi bankans í Bretlandi orðin fimmta tekjustoð félagsins ásamt tryggingum, eignastýringu, viðskiptabanka og fjárfestingabanka.

Eigið fé samstæðunnar var 80 milljarðar króna í lok tímabilsins samanborið við 78 milljarða króna í lok 2021. Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,32 í lok fjórðungsins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM nam 26,2 prósentum.

Úr fjárfestakynningu bankans.

Í gær var tilkynnt um að alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið Moody´s hefði í fyrsta sinn úthlutað Kviku banka Baa2 langtíma- og Prime-2 skammtíma- lánshæfiseinkunn í fjárfestingaflokki fyrir móttöku innstæða og útgáfu skuldabréfa. Forstjóri Kviku segir þetta að muni gegna stóru hlutverki í að lækka fjármagnskostnað félagsins.

Lánshæfiseinkunn Kviku, sem er sú fyrsta sem bankinn fær frá einu af alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækjunum, er sambærileg þeim sem stóru viðskiptabankarnir þrír eru með hjá hinum matsfyrirtækjunum.

Hlutabréfaverð Kviku, sem hefur verið undir þrýstingi síðustu mánuði, lækkaði um tæplega tvö prósent í um 1.100 milljóna króna veltu í viðskiptum í Kauphöllinni í dag og stóð 20,1 krónum á hlut. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað um liðlega 30 prósent frá þeim tíma þegar stóð hvað hæst um miðjan nóvember í fyrra, mun meira en í samanburði við hina bankanna sem eru skráðir í Kauphöllina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.