Innherji

Seðlabankinn greip inn í til að hægja á styrkingu krónunnar

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en gjaldeyrisinngrip bankans koma á sama tíma og verðbólga mælist 7,2 prósent og hefur ekki verið hærri í tólf ár.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en gjaldeyrisinngrip bankans koma á sama tíma og verðbólga mælist 7,2 prósent og hefur ekki verið hærri í tólf ár. vísir/vilhelm

Seðlabanki Íslands greip inn á gjaldeyrismarkaði á föstudaginn fyrir helgi þegar hann keypti gjaldeyri til að vega á móti gengishækkun krónunnar en hún hafði þá styrkst um hátt í eitt prósent í viðskiptum dagsins þegar bankinn kippti henni til baka, samkvæmt heimildum Innherja.

Þetta var í fyrsta sinn sem bankinn beitti gjaldeyrisinngripum á markaði í nærri tvo mánuði en gengi krónunnar hefur styrkst um nærri fimm prósent frá áramótum sé miðað við gengisvísitölu Seðlabankans.

Samkvæmt viðmælendum Innherja á gjaldeyrismarkaði keypti Seðlabankinn gjaldeyri síðastliðinn föstudag fyrir samtals 6 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 800 milljónir íslenskra króna, til að vinna gegn gengisstyrkingunni en við lokun markaða stóð gengið gagnvart evru í 138,7 krónum og nam gengishækkunin liðlega 0,5 prósentum yfir daginn.

Gengi krónunnar veiktist hins vegar að nýju í dag, eða um tæplega 0,9 prósent gagnvart evrunni. Hún hefur engu að síður hækkað um tæplega sex prósent á þessu ári, en evran hefur lækkað í virði gagnvart flestum helstu myntum að undanförnu. Sé litið Bandaríkjadals hefur gengi krónunnar staðið í stað yfir sama tímabil.

Gjaldeyrisinngrip Seðlabankans koma á sama tíma og verðbólga mælist 7,2 prósent og hefur ekki verið hærri í tólf ár. Seðlabankinn og flestir greinendur spá því að verðbólgan muni fara yfir átta prósent síðar á árinu, meðal annars vegna verðhækkana á ýmsum hrávörum og matvælum sem eiga eftir að koma inn af fullum þunga í verðlagi innfluttra vara hér á landi. Sterkari króna ætti að öðru óbreyttu að draga úr innfluttum verðbólguþrýstingi.

Markmiðið með gjaldeyrisinngripastefnu Seðlabankans er hins vegar að leitast við að mýkja sveiflurnar á gengi krónunnar, hvort sem er vegna hækkunar eða lækkunar, bæði til skemmri og meðallangs tíma.

Seðlabankinn beitti síðast sérstökum gjaldeyrisinngripum í byrjun aprílmánaðar þegar hann keypti gjaldeyri fyrir rúmlega 18 milljarða króna. Þau inngrip komu til, eins og Innherji hefur áður greint frá, vegna kaupa evrópska fjárfestingarsjóðsins BlueBay á 20 ára löngum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum í útboði Lánamála ríkisins fyrir um 20 milljarða króna. Þar áður hafði Seðlabankinn síðast gripið inn á markaði fyrir tveimur mánuðum þegar hann keypti gjaldeyri fyrir rúmlega tvo milljarða til að hægja á styrkingu krónunnar.

Eftir nokkra lækkun á genginu fram eftir síðasta ári tók krónan að styrkjast gagnvart gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda seint á síðasta ári og allt fram til innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar þegar fór að lækka skarpt á ný. Í síðustu Peningamálum Seðlabankans segir að gengishækkun krónunnar fram að innrásinni hafi endurspeglað að hluta aukna bjartsýni um slökun sóttvarnaraðgerða og bjartari horfur í efnahagsmálum.

„Aukin framvirk sala á gjaldeyri studdi enn frekar við gengi krónunnar en heimildir til afleiðuviðskipta með krónuna voru auknar töluvert um mitt síðasta ár. Útflutningsfyrirtæki hafa nýtt þetta aukna svigrúm til að selja framtíðargjaldeyristekjur sínar framvirkt en líklega hefur spákaupmennska með krónuna einnig aukist. Innrásin í Úkraínu olli hins vegar mikilli óvissu á fjármálamörkuðum og um tíma sóttu fjárfestar í öruggar fjáreignir og gjaldmiðla sem eru eftirsóttir á óvissutímum. 

Í kjölfarið var töluverður þrýstingur til lækkunar á gengi krónunnar og Seðlabankinn seldi umtalsvert af gjaldeyri í lok febrúar og á fyrstu dögum marsmánaðar í samræmi við inngripastefnu sína. Skörp gengislækkun í kjölfar stríðsátakanna kann þó einnig að skýrast af því að hluti þeirra fjárfesta sem höfðu selt gjaldeyri framvirkt hafi lokað samningum sínum þegar óvissa jókst,“ sagði í ritinu.

Gengi krónunnar er nú lítillega hærra gagnvart evrunni en það var fyrir innrás Rússa í Úkraínu og er á svipuðum stað og við upphaf faraldursins í febrúar 2020.

Frá áramótum nema gjaldeyrisinngrip Seðlabankans samtals um 43 milljörðum króna. Mestu munar um sölu á gjaldeyri fyrir rúmlega 33 milljarða á meðan gjaldeyriskaupin eru um 10 milljarðar. Sem hlutfall af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði eru samanlögð inngrip bankans á árinu um 25 prósent. Gjaldeyrisforði Seðlabankans var um 880 milljarðar í lok síðasta mánaðar.

Þegar gengi krónunnar hækkar gerir það Seðlabankanum auðveldara um vik að rækta meginhlutverk sitt, sem er að halda verðbólgunni í 2,5 prósenta markmiði, en á móti kemur er að ljóst að seðlabankstjóri horfir einnig til þess að ekki sé æskilegt að gengið hækki of skarpt á skömmum tíma. Það mun skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, einkum ferðaþjónustunnar á viðkvæmum tíma í endurreisn hennar, og eins gæti of mikil gengisstyrking skapað ójafnvægi í þjóðarbúskapnum með tilheyrandi þensluhvetjandi áhrifum á hagkerfið.

Í viðtali við Innherja um miðjan mars síðastliðinn sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telja að ein afleiðing þess að opnað var fyrir afleiðuviðskipti með krónuna sé sú að Seðlabankinn hafi núna ríkari ábyrgð á að tryggja stöðugleika á gjaldeyrismarkaði.

„Við gætum þurft að beita inngripum í meira mæli og vera reiðubúinn að bregðast við þegar það kann að skapast þrýstingur á krónuna vegna þess að fjárfestar þurfa að losa um framvirkar stöður sínar. Þetta gerir því gjaldeyrisinngripastefnuna meira krefjandi,“ útskýrði Ásgeir.

„Það skipti máli, og var afar jákvætt, að gjaldeyrismarkaðurinn hafi hreinsað sig nánast út á einum degi fyrr í þessum mánuði [mars] og eftir það er búið að vera meira jafnvægi á krónunni,“ en þar vísaði Ásgeir til gjaldeyrissölu bankans upp á samtals 48 milljónir evra, jafnvirði 7 milljarða króna – mesta sala bankans á gjaldeyri á einum degi í sex ár – þegar mikill þrýstingur var á þeim tíma á gengið til lækkunar. Fjárfestar sem höfðu gert framvirka gjaldeyrissamninga voru þá að loka stöðum sínum.

„Aðrir hlutir eru líka að leggjast með krónunni þessa dagana,“ bætti Ásgeir við í fyrrnefndu viðtali, og sagði að gjaldeyrismarkaðurinn væri í nokkuð góðu jafnvægi. „Við erum alveg sátt við núverandi gengi sem er á ágætis stað,“ sagði seðlabankastjóri, en gengi krónunnar gagnvart evru stóð á þeim í 143 krónum en við lokum markaða í dag var það 139,3 krónur.

Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans, sem birtist í síðustu viku, kom meðal annars fram að bankinn ætti von á því að krónan myndi styrkjast frekar sem ætti eftir að styðja við hjöðnun verðbólgunnar. Skýrist það meðal annars af því að í spá Hagfræðideildarinnar er gert ráð fyrir afgangi á viðskiptum Íslands við útlönd út spátímabilið árið 2024.

Aðrir þættir munu hins vegar einnig hafa áhrif til styrkingar krónunnar, að því er segir í þjóðhagsspá Landsbankans. Vaxtamunur við útlönd á eftir að aukast frekar sem veldur innflæði erlends fjármagns inn á skuldabréfamarkaðinn. Lagabreyting sem varð um mitt síðasta ár leyfir nú stöðutöku í gegnum framvirka samninga sem þýðir að væntingar fjárfesta til krónunnar hafa nú meiri áhrif. Staða þessa samninga bendir til þess að væntingar eru almennt á þá leið að búast megi við styrkingu.

Þá telur Landsbankinn ólíklegt að Seðlabankinn muni kaupa mikið af innflæðinu því að það myndi vinna gegn verðbólgumarkmiði peningastefnunnar.


Tengdar fréttir

BlueBay rennir hýru auga til íslenskra ríkisbréfa

Ísland er að verða áhugaverður kostur fyrir skuldabréfafjárfesta á ný en það er mat sjóðstjóra BlueBay Asset Management, eins stærsta sérhæfða skuldabréfastýringarfyrirtæki Evrópu. Fyrirtækið var um tíma stærsti erlendi eigandi íslenskra ríkisbréfa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.