Viðskipti innlent

Ríkið þarf að greiða olíufélögum rúmlega hálfan milljarð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Atlantsolía og Skeljungur höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu og höfðu betur.
Atlantsolía og Skeljungur höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu og höfðu betur. Vísir

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða Skeljungi 448 milljónir króna í dómsmáli sem snerist um endurgreiðslu flutningsjöfnungargjalds. Ríkið þarf jafn framt að greiða Atlantsolíu 86 milljónir vegna sambærilegs máls.

Þetta er niðurstaða Landsréttar í málum Skeljungs og Atlantsolíu gegn íslenska ríkinu. Landsréttur sneri því við dómum héraðsdóms Reykjavíkur í málunum þar sem ríkið var sýknað af kröfum olíufélaganna á síðasta ári.

Landsréttur kvað upp dóm sinn í málunum tveimur í dag. Í dómunum kemur fram að Skeljungur og Atlantsolía hafi höfðað mál gegn ríkinu til endurgreiðslu svokallaðs flutningsjöfnunargjalds sem lagt var á fyrirtækin á árunum 2016 til 208.

Deilt var um hvort gjaldið væri lögmætt eður ei. Kemur fram í dómum Landsréttar að ekki væri deilt um að gjaldið teldist skattur. Í dómum Landsréttar er vísað í ákvæði stjórnarskrárinnar þess efnis að ekki megi leggja á skatt né breyta eða taka af nema með lögum.

LandsrétturVísir/Vilhelm.

Tekið er fram að í lögum hafi verið gert ráð fyrir að flutningsgjald væri lagt á allar olíuvörur sem fluttar væru til landsins rynni í flutningsjöfnunarsjóð olíuvara. Fjárhæð gjaldsins var þó ekki ákveðin í umrædd lögum en Byggðastofnun falið að ákveða gjaldið fyrir minnst þrjá mánuði í senn.

Gegn stjórnarskránni

Í dómum Landsréttar segir að í lögunum hafi einu stjórnvaldi verið falið að ákveða fjárhæð skattsins með það fyrir augum að fjárhæðin nægði til að greiða kostnað sem öðru stjórnvaldi var falið að afmarka.

Með þessu hafi stjórnvöldum verið falin ákvörðun um meginatriði skattheimtunna. Fyrrnefnd stjórnarskrárákvæði leggi bann við svo almennu framsali skattlagningarvalds til stjórnvalda.

Féllst Landsréttur því á kröfur Skeljungs og Atlantsolíu um endurgreiðslu hinna ofgreiddu gjalda.

Alls þarf íslenska ríkið að greiða Skeljungi 448,6 milljónir króna og Atlantsolíu 86,9 milljónir króna

Dóma Landsréttar má lesa hér og hér.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.