Umræðan

Afskræming bankasölunnar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Einhvers konar stundarbrjálæði hafði gripið um sig. Forsíður vefmiðla voru undirlagðar af fréttum um að hinir og þessir hefðu fengið að kaupa Íslandsbanka á undirverði, og gífuryrðum um spillingu. Það heyrðust jafnvel háværar kröfur um að sölunni skyldi rift.

Í öllum hamaganginum kom fyrir að vönduð heimildavinna á fjölmiðlum mætti afgangi. Birtar voru villandi og beinlínis ósannar fréttir um að stórir einkafjárfestar sem tóku þátt í útboðinu hefðu skömmu síðar selt sinn hlut. Svo mikið kappsmál var sumum fjölmiðlum að finna fleiri neikvæðar hliðar á bankasölunni.

Botninum var líklega náð þegar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði fjármála- og efnahagsráðherra á opnum þingfundi hvort ráðherra dytti í hug að hann kæmist upp með að „selja pabba sínum banka“. Eða þegar sami þingmaður setti fram ásakanir um markaðsmisnotkun sem enginn fótur var fyrir. Þetta snerist greinilega um að valda ríkisstjórninni sem mestum skaða á sem skemmstum tíma. Það voru enda sveitarstjórnarkosningar á næsta leyti.

En nú, þegar rykið hefur sest, kemur sífellt betur í ljós að helsta gagnrýnin á stjórnvöld og Bankasýsluna heldur ekki vatni. Salan á 22,5 prósenta hlut með tilboðsfyrirkomulagi var ekki það mikla reginhneyksli sem hún var látin líta út fyrir að vera.

Í kjölfar útboðsins var því víða haldið fram að þátttakendur hefðu fengið bankann á afsláttarverði þar sem útboðsgengið, 117 krónur á hlut, var rétt rúmlega 4 prósentum undir dagslokagengi í Kauphöllinni. Forstjóri Bankasýslunnar hefur hins vegar bent á að „afslátturinn“ hafi verið um helmingi minni en framhaldsútboði Arion banka árið 2019, sem var einnig framkvæmt með tilboðsfyrirkomulagi, þrátt fyrir að magnið hafi verið helmingi meira.

En nú, þegar rykið hefur sest, kemur sífellt betur í ljós að helsta gagnrýnin á stjórnvöld og Bankasýsluna heldur ekki vatni.

Jafnframt hefur evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, bent á að í þeim útboðum sem hafa farið fram hjá skráðum evrópskum félögum með sambærilegu fyrirkomulagi hafi „afslátturinn“ verið að meðaltali um 6,4 prósent. Og hann er enn meiri eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Eftir að hafa náð hámarki í 130 krónum í byrjun apríl hefur hlutabréfaverð Íslandsbanka lækkað niður í 118 krónur og er því í nálægð við útboðsgengið. Það er ekki hægt að tala um neinn eiginlegan afslátt í þessum efnum, ríkið fékk augljóslega gott verð fyrir hlutinn.

Það liggur jafnframt fyrir að bæði efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd fengu ýtarlegar kynningar á áformum Bankasýslunnar og höfðu nefndarmenn því tækifæri til að fræðast um ferlið ef eitthvað var óljóst. Undrun nefndarmanna eftir útboðið bendir til þess að þeir hafi vanrækt þessa skyldu sína.

Gagnrýni Samfylkingarinnar hefur að miklu leyti snúist um að jafnræðisreglan í lögum um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum hafi verið brotin með þrenns konar hætti. Í fyrsta lagi hafi útilokun almennings ekki staðist skoðun, í öðru lagi hafi allir „hæfir fjárfestar“ getað tekið þátt og í þriðja lagi hafi tveimur „hæfum fjárfestum“ hafi verið hafnað.

Það er ekki hægt að tala um neinn eiginlegan afslátt í þessum efnum, ríkið fékk augljóslega gott verð fyrir hlutinn.

Í minnisblaði sem lögmannastofan LOGOS útbjó fyrir Bankasýsluna og fjölmiðlar greindu frá í vikunni eru fullyrðingarnar hraktar. Eins og lögmannastofan bendir á má gera ráð fyrir því að fagfjárfestar hafi almennt verið meðvitaðir um að útboðs væri að vænta, meðal annars vegna heimildar til sölu í fjárlögum og þeirrar opinberu kynningar sem málið hlaut.

„Er ekki ósanngjarnt að gera þær kröfur til viðkomandi, meðal annars í ljósi stöðu þeirra sem fagfjárfesta og þar með þekkingar og reynslu á fjármálamarkaði, að þeir hefðu gert nauðsynlegar ráðstafanir og væru undir það búnir að setja fram tilboð að eigin frumkvæði og með skömmum fyrirvara eftir að tilkynning um útboðið varð opinber,“ segir í minnisblaðinu.

Sú afstaða að tilboðsfyrirkomulag væri besta aðferðin til að uppfylla forgangsmarkmið sölumeðferðar um hagkvæmni, sem og önnur markmið sem fram koma í lögum um sölu á hlutum ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, var vel rökstudd að mati lögmannastofunnar. Aðferðin var auk þess samþykkt af hálfu ráðherra og hlaut umsögn viðeigandi þingnefnda og Seðlabanka Íslands, líkt og lög gera ráð fyrir.

Eftir birtingu minnisblaðsins sagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að hún væri enn sannfærðari en áður um að lögbrot hefðu verið framin. Þingmaður sá þó ekki ástæðu til að svara lögmannastofunni efnislega.

Eftir á að hyggja, í ljósi þess hvernig söluferlið var afskræmt og umræðan dregin niður í svaðið, má færa rök fyrir því að almennt útboð hefði verið skynsamlegri kostur í pólitískum skilningi jafnvel þó að niðurstaðan hefði verið lakari fyrir ríkissjóð.

Ósennilegt er að niðurstaðan verði sú að jafnræðisreglan hafi verið brotin og raunar má segja að flest kurl séu komin til grafar hvað Bankasýsluna og fjármálaráðherra varðar. Það sem er gagnrýnisvert og hefur óneitanlega skaðað ásýnd söluferlisins snýr að starfsháttum söluráðgjafa sem eru til rannsóknar hjá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Ekki er von á öðru en að stofnunin takið málið föstum tökum.

En þegar kemur að sölu á ríkiseignum eru bankar ekki eins og hver önnur fyrirtæki. Bankasýslan hefði getað staðið sig betur í því að kynna söluferlið fyrir almenningi, eins og forstjórinn sjálfur hefur viðurkennt. Og eftir á að hyggja, í ljósi þess hvernig söluferlið var afskræmt og umræðan dregin niður í svaðið, má færa rök fyrir því að almennt útboð hefði verið skynsamlegri kostur í pólitískum skilningi jafnvel þó að niðurstaðan hefði verið lakari fyrir ríkissjóð.

Helsti lærdómurinn sem hægt er að draga af þessari atburðarás er sá að á Íslandi er ómögulegt fyrir ríkið að selja banka með aðferð sem er þekkt og viðurkennd annars staðar í Evrópu þrátt fyrir að hún sé fjárhagslega hagkvæm fyrir ríkissjóð eins og raunin var í útboðinu í mars. Hér gilda önnur lögmál.

Höfundur er blaðamaður á Innherja



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×