Viðskipti innlent

Tvö­falda fisk­eldi Sam­herja í Öxar­firði

Árni Sæberg skrifar
Farið er að móta fyrir kerjunum í Öxarfirði.
Farið er að móta fyrir kerjunum í Öxarfirði. Samherji

Samherji stendur nú að stækkun Silfurstjörnunnar, landeldisstöðvar sinnar í Öxarfirði. Stefnt er að því að tvöfalda eldisrými og framleiðslu þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn á ári. 

Í tilkynningu á vef Samherja segir að þegar sé farið að móta fyrir fyrstu kerjunum en þau verði fimm talsins og um helmingi stærri en þau sem fyrir eru.

„Við stefnum á taka fyrsta kerið í notkun í lok ársins, eins og staðan er í dag getum við sagt að allt gangi samkvæmt áætlun. Hin kerin verða svo virkjuð á eins til tveggja mánaða millibili. Hérna á svæðinu eru starfsmenn nokkurra verktakafyrirtækja og stórvirkar vinnuvélar eru áberandi á svæðinu. Undirbúningurinn tók náttúrulega nokkurn tíma, svo sem vinna við skipulagsmál, leyfisumsóknir og fleira. Góður undirbúningur skiptir sköpum og þá verður sjálf uppbyggingin hnitmiðaðri en ella,“ segir Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri Fiskeldis Samherja í Öxarfirði.

Á dögunum réðst Samherji í þriggja og hálfs milljarða króna hlutafjáraukningu til að fjármagna uppbyggingu fiskeldisins í Öxarfirði sem og nýs fiskeldis við Reykjanesvirkjun.

Í tilkynningu Samherja segir að stækkunin á Öxarfirði sé nokkurs konar undanfari uppbyggingar stórrar landeldisstöðvar Samherja Fiskeldis á Reykjanesi.

„Já, við ætlum að nýta okkur þá reynslu sem við öðlumst hérna fyrir norðan þegar uppbyggingin hefst fyrir alvöru fyrir sunnan. Auk þess var kominn tími á ýmsar uppfærslur í starfseminni, enda Silfurstjarnan á margan hátt komin nokkuð til ára sinna. Eftir stækkun verður reksturinn hagkvæmari,“ segir Arnar Freyr.

Þá segir Arnar að mikið líf og fjör á Öxarfirði en starfsmenn séu um það bil helmingi fleiri á vinnustaðnum en venjulega, en vinnustaðurinn er þegar sá stærsti á svæðinu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×