Handbolti

Þórir að missa út sautján stórmóta konu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem hefur verið fastakona í hópnum hjá Þóri Hergeirssyni.
Camilla Herrem hefur verið fastakona í hópnum hjá Þóri Hergeirssyni. EPA-EFE/HIROSHI YAMAMURA

Norska handboltakonan Camilla Herrem þarf að leggjast á skurðarborðið og missir væntanlega af Evrópumótinu í árslok.

Herrem hefur oftast spilað stórt hlutverk hjá Þóri Hergeirssyni síðan hann tók við norska landsliðinu og hefur verið fastakona í hópnum hans.

Herrem er nú að spila með Sola í úrslitakeppninni en vinstri hornamaðurinn sagði frá mögulegri aðgerð í viðtali við TV 2 eftir síðasta leik.

„Ég finn mikið til í hvert skipti sem ég geng eða hleyp eða eiginlega þegar ég geri allt,“ sagði Herrem.

„Það er svo erfitt að kvíða fyrir hverju stökki og hverjum spretti. Stundum gleymir þú þessu í spennu leiksins en svo finnur þú rosalega mikið til eftir leikinn,“ sagði Herrem. Hún er að glíma við meiðsli á hásin.

Camilla Herrem er 35 ára gömul og hefur spilað á sautján stórmótum með norska landsliðinu síðan hún var fyrst með á EM 2008. Hún hefur unnið fjórtán verðlaun á stórmótum með norska landsliðinu þar af níu gullverðlaun.

„Núna þarf ég bara að vera raunsæ og það verður erfitt fyrir mig að ná Evrópumótinu. Ég vil heldur ekki koma of fljótt til baka til að ógna ekki restinni af ferlinum. Ég er á þeim stað að heilsan verður sett í fyrsta sæti,“ sagði Herrem.

Herrem klárar úrslitakeppnina í Noregi og fer síðan í aðgerðina í maí. Hún verður frá í sex mánuði.

Þrátt fyrir að vera orðin 35 ára þá ætlar Herrem sér að vera hluti af norska landsliðinu næstu árin en fram undan er stórmót á heimavelli 2023 og svo Ólympíuleikar í París árið eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×