Innherji

Meiri hætta á að verðbólga á næstunni sé vanmetin en ofmetin

Hörður Ægisson skrifar
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum.“
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum.“

Peningastefnunefnd Seðlabankans ræddi um það á fundi sínum í byrjun þessa mánaðar að hækka vexti bankans um 75 til 100 punkta. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra að hækka vextina úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent en fram kom í umræðu nefndarinnar að „meiri hætta [væri] á að verðbólga á næstunni væri vanmetin en að hún væri ofmetin og óvissa hefði aukist.“

Verðbólguhorfur hefðu meðal annars versnað í mörgum löndum álíka mikið og hér á landi sem nefndin telur að muni leiða til aukinnar innfluttrar verðbólgu. Hefur hún því áhyggjur af „mögulegum annarrar umferðar áhrifum af verðhækkun innfluttrar vöru og launahækkunum.“

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar, sem var birt fyrir skömmu, en á meðal helstu raka fyrir því að hækka vexti bankans svo mikið voru að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert. Þá hefðu verðbólguvæntingar einnig hækkað á alla mælikvarða og því „aukin hætta á að kjölfesta þeirra við markmið hefði veikst.“

Þá er bent á að raunvextir hefðu lækkað enn frekar frá fyrri fundi nefndarinnar í febrúar og væru þess vegna „verulega neikvæðir“ og langt undir jafnvægisraunvöxtum.

Samkvæmt nýjustu þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan, sem er núna 7,2 prósent, haldi áfram að hækka og muni mælast í kringum átta prósent á þriðja og fjórða ársfjórðungi – sem er um 2,8 prósentum meiri verðbólga var spáð í febrúar – og ekki er talið að hún fari undir þrjú prósent fyrr en seint á árinu 2024.

Helstu rök nefndarinnar fyrir því að taka minni skref við hækkun vaxta voru þau að alþjóðlegar efnahagshorfur gætu versnað meira en búist er við sem muni draga að óbreyttu úr hagvexti hér á landi. Þá var bent á að nú gengi hraðar á uppsafnaðan sparnað almennings og hluti aukinnar einkaneyslu tengdist afleiðingum farsóttarinnar. Þá hafa horfur um kaupmátt launa versnað og því mögulegt að draga muni hratt úr innlendum umsvifum þegar líður á árið.

Í fundargerðinni segir einnig að nefndin hefði rætt beitingu annarra stjórntækja í peningamálum. „Fram kom að meðal annars þyrfti að skoða á næstunni mögulega beitingu stjórntækja sem hægt væri að nota við stýringu á lausu fé í umferð og til þess að stýfa gjaldeyrisinngrip bankans þegar svo ber undir.“

Samkvæmt nýjum tölum um vísitölu húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur það hækkað um 22,4 prósent á síðustu tólf mánuðum. Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar. Fram kom í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á síðasta vaxtaákvörðunarfundi að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með að hert skilyrði hefðu ekki enn haft tilætluð áhrif á fasteignaverð.

Fram kemur í fundargerðinni að nefndarmenn geri ráð fyrir að „samspil vaxtahækkana og hertra lánþegaskilyrða [muni] hægja á verðhækkun húsnæðis og innlendri eftirspurn.“


Tengdar fréttir

Erum að vinna í haginn fyrir kjarasamninga, segir seðlabankastjóri

„Við höfum tækin sem þarf til að ná niður verðbólgunni og við getum beitt þeim af fullum þunga. Ef við þurfum að gera það í andstöðu við aðila vinnumarkaðarins af því að þeir ætla sér að auka enn á verðbólguna með því að hækka launin meira en hagkerfið þolir þá þýðir það einungis að Seðlabankinn þarf að keyra hagkerfið niður í kreppu,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í viðtali við Innherja.

Árstaktur íbúðaverðs mælist enn yfir 22 prósentum

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7 prósent á milli mánaða samkvæmt nýbirtri mælingu Þjóðskrár fyrir aprílmánuð en til samanburðar nam hækkunin í mars 3,1 prósentum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×