Innherji

Árstaktur íbúðaverðs mælist enn yfir 22 prósentum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 8,5 prósent og síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 13,1 prósent. 
Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 8,5 prósent og síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 13,1 prósent.  VÍSIR/VILHELM

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,7 prósent á milli mánaða samkvæmt nýbirtri mælingu Þjóðskrár fyrir aprílmánuð en til samanburðar nam hækkunin í mars 3,1 prósentum.

Á síðastliðnum tólf mánuðum hefur vísitalan hækkað um 22,4 prósent en árstakturinn í mars var 22,2 prósent. 

Seðlabankinn ákvað í fyrra að beita tveimur þjóðhagsvarúðartækjum í því skyni að koma böndum á fasteignaverð. Bankinn kynnti meðal annars nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar.

Eftir síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans í maí, þar sem bankinn hækkaði vexti um 100 punkta upp í 3,75 prósent, kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með að hert skilyrði hefðu ekki enn haft tilætluð áhrif á fasteignaverð. 

Verðbólga mældist 7,2 prósent í apríl og sem fyrr var hækkun húsnæðisverðs fyrirferðarmikil í mælingunni.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga haldi áfram að aukast og verði í kringum 8 prósent á bæði þriðja og fjórða ársfjórðungi. Þetta er veruleg hækkun frá síðustu verðbólguspá bankans í febrúar og ekki er talið að verðbólga verði komin undir 3 prósent fyrr en seint árið 2024.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×