Innherji

Hömlur á erlendu eignarhaldi ýta Síldarvinnslunni út úr vísitölu FTSE

Hörður Ægisson skrifar
Síldarvinnslan, sem er að stærstum hluta í eigu Samherja, var skráð á markað fyrir um ári og hefur markaðsvirði félagsins frá þeim tíma hækkað um 65 milljarðar og nemur núna um 165 milljörðum króna.
Síldarvinnslan, sem er að stærstum hluta í eigu Samherja, var skráð á markað fyrir um ári og hefur markaðsvirði félagsins frá þeim tíma hækkað um 65 milljarðar og nemur núna um 165 milljörðum króna.

Alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell hefur ákveðið að Síldarvinnslan, eitt stærsta útgerðarfélag landsins, verði ekki á meðal þeirra fyrirtækja í Kauphöllinni sem verða tekin inn í sérstaka vísitölu nýmarkaðsríkja vegna þeirra víðtæku takmarkana sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi.

Í byrjun apríl á þessu ári tilkynnti FTSE um það að íslenski hlutabréfamarkaðurinn myndi færast upp í flokk nýmarkaðsríkja hjá vísitölufyrirtækinu í september næstkomandi en við það munu skráð félög hér á landi komast í sigti margfalt stærri hóps erlendra fjárfestingarsjóða.

Á þeim tíma var ráðgert að Síldarvinnslan yrði á meðal þeirra fimmtán íslensku félaga í Kauphöllinni sem yrðu tekin inn í svonefnda FTSE Global All Cap vísitöluna en ákvörðun um endanlega vigt þeirra á að liggja fyrir í lok júní. Núna hefur FTSE hins vegar upplýst um það að Síldarvinnslan, sem var skráð á markað fyrir um ári síðan, hafi verið tekin út úr þeim hópi og vísar til þeirra laga sem gilda um fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi hér á landi og setur verulegar skorður á eignarhald þeirra í fyrirtækjum sem stunda fiskveiðar í efnahagssögu Íslands.

Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar hefur lækkað um rúmlega tvö prósent, svipað og Úrvalsvísitalan í heild sinni, í nærri 200 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Markaðsvirði félagsins, sem er að stærstum hluta í eigu Samherja, stendur í 165 milljörðum sem gerir það að fimmta verðmætasta fyrirtækinu á hlutabréfamarkaði – á eftir Marel, Arion, Íslandsbanka og Brim.

Núverandi löggjöf um eignarhald erlendra aðila í sjávarútvegi girðir mjög fyrir aðkomu erlendra fjárfesta að eigendahópi útgerðarfélaga. Þannig mega aðeins íslenskir ríkisborgarar, aðrir íslenskir aðilar eða íslenskir lögaðilar, sem eru að öllu leyti í eigu Íslendinga eða þeirra sem uppfylla tiltekin skilyrði, stunda fiskveiðar hér á landi. Þau skilyrði eru að viðkomandi sé undir íslenskum yfirráðum, ekki í eigu erlendra aðila meira en sem nemur fjórðungshluta ef um er að ræða fimm prósenta eignarhlut í fyrirtæki sem stundar veiðar eða vinnslu í efnahagssögu Íslands. Ef eignarhluturinn er undir fimm prósentum mega erlendir fjárfestar þó eiga allt að þriðjungshlut.

Tvö sjávarútvegsfyrirtæki eru skráð í Kauphöllinna – Síldarvinnslan og Brim – en engir erlendir sjóðir hafa ratað inn á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félaganna. Á árunum 2015 og 2016 keyptu sjóðir í stýringu Eaton Vance, sem var umsvifamikill fjárfestir á íslenskum hlutabréfamarkaði um nokkurt skeið, í HB Granda (sem núna heitir Brim) og áttu um tíma samanlagt um eins prósenta hlut en seldu sig síðan út úr sjávarútvegsfélaginu.

Íslenski markaðurinn hefur verið flokkaður sem vaxtarmarkaður (e. Frontier Market) hjá FTSE Russell frá því í september 2019 en með uppfærslunni kemst markaðurinn á ratsjá fleiri og stærri fjárfesta sem hafa heimildir til að fjárfesta í fyrirtækjum í vísitölunni. Auk þess má búast við innflæði frá vísitölusjóðum sem fjárfesta í samræmi við samsetningu vísitölunnar. Umfang sjóða sem haga fjárfestingum sínum í samræmi við nýmarkaðavísitölur er margfalt meira en þeirra sem fylgja vaxtarmarkaðsvísitölum.

„Þetta snýst ekki einungis um vísitölusjóði – þá erum við líklega að tala um nokkra tugi milljarða – heldur einnig um virka fjárfesta, bæði þá sem sérhæfa sig í fjárfestingum á nýmörkuðum og þá sem einfaldlega sjá flokkun FTSE sem merki um að íslenski markaðurinn sé á réttri leið,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í viðtali við Innherja í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir

Ný flokkun hjá FTSE skilar fjölbreyttari flóru og ýtir undir skráningar

„Það hefur sárvantað fjölbreytni í fjárfestaflóruna. Við höfum náð árangri þegar kemur að innlendum einstaklingum en erlenda innflæðið hefur ekki verið eins mikið og maður hefði viljað. Með breiðari flóru styrkist verðmyndun og við fáum betri markað,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.