Innherji

Spáir rekstrartapi hjá Icelandair í ár vegna mikillar hækkunar á eldsneytisverði

Hörður Ægisson skrifar
Verðmatsgengi Jakobsson Capital lækkar um tæplega 17 prósent frá fyrra mati, eða úr 2,93 krónum á hlut í 2,45 krónur á hlut. Það er engu að síður um 37 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi Icelandair.
Verðmatsgengi Jakobsson Capital lækkar um tæplega 17 prósent frá fyrra mati, eða úr 2,93 krónum á hlut í 2,45 krónur á hlut. Það er engu að síður um 37 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi Icelandair. Vísir/Vilhelm

Rekstrargrundvöllur Icelandair hefur tekið stakkaskiptum á milli ára samtímis aukinni eftirspurn eftir flugi en á móti eru ýmsir kostnaðarliðir, eins og meðal annars hækkandi eldsneytisverð, að þróast með óhagstæðum hætti, gengi krónunnar er sterkt og samkeppnin er mikil.

Þetta kemur fram í nýju verðmati Jakobsson Capital á Icelandair en þar segir að í upphafi árs hafi allt útlit verið fyrir kröftugan viðsnúning hjá flugfélaginu en svo hafi Úkraínustríðið byrjað sem hefur leitt til gríðarlegrar hækkunar á eldsneytiskostnaði. Verð á þotueldsneyti hefur þannig hækkað um liðlega 125 prósent á einu ári.

Greinendur Jakobsson segjast enn vera bjartsýnir þegar kemur að ferðamannasumrinu og því geri þeir ráð fyrir miklum vexti tekna á árinu 2022 og þær verði samtals rúmlega 1.100 milljónir Bandaríkjadala og nærri tvöfaldist frá fyrra ári. Á sama tíma eru hins vegar forsendur um kostnað „töluvert dekkri,“ eins og segir í verðmatinu sem Innherji hefur undir höndum og var birt eftir lokun markaða í gær, og því er spáð tapi upp á 29 millljónir dala, jafnvirði um 3,8 milljarða íslenskra króna, miðað við 24 milljóna dala hagnað í síðasta verðmati frá því í febrúar.

Verðmatsgengi Jakobsson Capital lækkar því um tæplega 17 prósent frá fyrra mati, eða úr 2,93 krónum á hlut í 2,45 krónur á hlut. Það er engu að síður um 37 prósentum hærra en markaðsgengið nú um stundir en við lokun markaða í dag stóð hlutabréfaverð Icelandair í 1,79 krónum á hlut. Gengi bréfa félagsins fór hæst í 2,29 krónur á hlut um miðjan febrúar á árinu.

Frá áramótum hefur hlutabréfaverð flugfélagsins lækkað um nærri tvö prósent og markaðsvirði Icelandair er nú um 68 milljarðar króna.

Á fyrsta ársfjórðungi 2022 jukust tekjur Icelandair um 177 prósent á milli ára og námu samtals um 159 milljónum dala. Greinendur Jakobsson Capital segja að flutningatölur fyrir apríl lofi góðu en félagið flutti samtals 242 þúsund farþega sem var um 31,5 prósenta aukning frá fyrri mánuði. Í verðmatinu kemur fram að Jakobsson hafi verið „frekar bjartsýnt“ á rekstur Icelandair eftir uppgjör fjórða ársfjórðungs 2021 en félaginu hafi þá „rétt vantað herslumuninn“ miðað við þáverandi eldsneytisverð og verð flugfargjalda til að afkoman af rekstrinum yrði jákvæð.

Núna breyti hins vegar ört hækkandi eldsneytisverð sviðsmyndinni umtalsvert, að mati Jakobsson Capital.

„Rekstrartap Icelandair var 58,3 milljónir dollara á fyrsta ársfjórðungi 2022 samanborið við 46,2 milljón dollara rekstrartap á fyrsta ársfjórðungi 2021. Það var umtalsvert meira en Jakobsson Capital gerði ráð fyrir. Ef ekki hefði komið til gríðarlegra hækkunar á eldsneyti hefði verið kröftugur rekstrarbati milli ára. Samkvæmt fréttatilkynningu hækkaði tonnið af þotueldsneyti um 75 prósent milli ára. Kostnaður vegna þotueldsneytis hækkaði um 477 prósent á sama tíma og tekjur af flugfarþegum jukust um 252 prósent,“ segir í verðmatinu.

Bent er á að ef kostnaður vegna þotueldsneytis hefði hækkað jafn mikið og tekjur hefði rekstrartap verið mun minna, eða um 32,8 milljónir dala, og útlit væri fyrir mikinn rekstrarhagnað hjá Icelandair enda er fyrsti ársfjórðungur gjarnan þyngstur í fluginu og einkennist af rekstrartapi.

Þrátt fyrir að hækkun eldsneytisverð hafi valdið Icelandair „nokkrum búsifjum,“ eins og nefnt er í verðmatinu, á fyrsta ársfjórðungi þá segir að að reksturinn sé engu að síður allt annar en áður sem birtist meðal annars í því að rekstrarhagnaðarhlutfallið var neikvætt 36,8 prósent á fjórðungnum borið saman við tæplega 81 prósent á sama tímabili árið áður.

Í spá Jakobsson Capital er gert ráð fyrir að eitthvað af auknum eldsneytiskostnaði verði velt út í verðlag en svigrúm til þess sé hins vegar takmarkað. „Flug virðist hafa aukist til Íslands eftir stríðið í Úkraínu og mörg flugfélög veðjað á Ísland sem heitan áfangastað í sumar,“ segir í verðmatinu.

Þá kemur fram að ljóst sé að flugfélög muni lenda í vanda ef núverandi eldsneytisverð, sem er langt fyrir ofan öll meðaltalsgildi, vari lengi. Þannig muni annaðhvort verð flugmiða hækka verulega á næsta ári eða þotueldsneytisverðið gefi eftir. Jakobsson Capital spáir því að eldsneytisverðið eigi eftir að lækka töluvert og að ferðamönnum muni fjölga enn frekar á næsta ári sem skili sér í 49 milljóna dala rekstrarhagnaði fyrir Icelandair.

Samkvæmt spánni er áætlað að rekstur Icelandair toppi árið 2024, þegar hagnaðurinn verður 77 milljónir dala, en nýir kjarasamningar og mikil fjölgun í flugstétt mun setja aukin þrýsting á kostnaðarverðshækkanir á árunum 2025 og 2026 sem á eftir að vinna á móti stærðarhagkvæmni vegna vaxtar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.