Rafíþróttir

EA og FIFA slíta samstarfinu eftir að samningar sigldu í strand

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tölvuleikurinn FIFA hefur notið gríðarlegra vinsælda seinustu áratugi.
Tölvuleikurinn FIFA hefur notið gríðarlegra vinsælda seinustu áratugi. Jakub Porzycki/NurPhoto via Getty Images

Tölvuleikjaframleiðandinn Electronic Arts og Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hafa slitið samstarfi sínu eftir tæplega þriggja áratuga langt samstarf.

Eftir margra mánaða samningaviðræður sigldu samningar í strand og EA mun því ekki lengur framleiða fótboltaleik undir nafninu FIFA. Þess í stað mun leikurinn fá nýtt nafn.

Samningur EA og FIFA átti að renna út eftir HM karla sem fram fer í Katar í lok árs, en honum hefur verið breytt og hann gildir nú fram yfir HM kvenna sem fram fer næsta sumar. Eftir það munu 150 milljónir spilara leiksins þurfa að venjast nýju nafni á leikjunum: EA Sports FC.

Lítil breyting á leiknum

Þrátt fyrir þessar breytingar mun leikurinn sjálfur vera að miklu leyti sá sami. Flest af stærstu liðum heims og leikmönnum þeirra verða áfram í leiknum sökum þess að EA gerir aðra samninga við deildir og lið.

Hins vegar mun ekki lengur vera hægt að taka þátt á HM og öðrum mótum á vegum FIFA í nýja leiknum.

EA fær samkeppni frá FIFA

Gianni Infantino, forseti FIFA.Harold Cunningham/FIFA

Fyrir mörgum er FIFA ekki skammstöfun fyrir Alþjóðaknattspyrnusambandið, heldur hugsa margir strax til tölvuleiksins vinsæla. FIFA, þ.e. Alþjóðaknattspyrnusambandið, hefur gefið það út að sambandið muni gefa út sinn eiginn leik undir nafninu FIFA og fara þar með í beina samkeppni við EA.

„Ég get fullvissað ykkur um það að eni ósvikni, alvöru leikurinn mun bera FIFA-nafnið og hann mun vera sá besti fyrir tölvuleikjaspilara og knattspyrnuaðdáendur,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA í dag.

„FIFA-nafnið er eina alþjóðlega, upprunalega nafnið. FIFA 23, FIFA 24, FIFA 25 og svo framvegis. Eini fastinn er FIFA-nafnið og það verður áfram og mun halda áfram að vera besti leikurinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×