Innherji

Ölgerðin á markað í næsta mánuði og félagið verðmetið á um 25 milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Andri Þór Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar og fer jafnframt með helmingshlut í OA eignarhaldsfélaginu sem er þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins með 16 prósenta hlut.
Andri Þór Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar og fer jafnframt með helmingshlut í OA eignarhaldsfélaginu sem er þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins með 16 prósenta hlut. Vísir/Vilhelm

Ölgerðin, stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, áformar skráningu á Aðalmarkað Kauphallarinnar á fyrstu dögum júnímánaðar næstkomandi. Samhliða skráningunni verður 25 til um 30 prósenta hlutur í félaginu boðin til sölu, samkvæmt heimildum Innherja, en áskriftartímabil hlutafjárútboðsins mun fara fram í síðustu viku þessa mánaðar.

Kynningarfundir með fjárfestum vegna útboðsins hefjast í næstu viku en það er Kvika banki sem hefur umsjón með söluferlinu og skráningu félagsins á hlutabréfamarkað.

Hluthafar Ölgerðarinnar hafa gert með sér samkomulag um að þeir muni minnka við hlut sinn í útboðinu í samræmi við eignarhlutföll sín (pro rata) en stærstu eigendur fyrirtækisins eru framtakssjóðirnir Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, og Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, með samanlagt um 43 prósenta hlut. Þá fer OA eignarhaldsfélag, sem er í eigu þeirra Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra Ölgerðarinnar, og Októs Einarssonar, stjórnarformanns, með rúmlega 16 prósenta hlut.

Samkvæmt heimildum Innherja er horft til þess að miðað við gengið sem verður ákvarðað í útboðinu þá muni fást á bilinu um sex til sjö milljarðar króna fyrir sölu á 25 til 30 prósenta hlut. Hlutafé Ölgerðarinnar yrði því verðmetið nálægt 25 milljörðum króna en heildarvirði félagsins – hlutafé að meðtöldum vaxtaberandi skuldum – væri hins vegar nokkuð yfir 30 milljarðar króna. Vaxtaberandi skuldir Ölgerðarinnar námu um 8,5 milljörðum í lok febrúar árið 2021.

Verulegur rekstrarbati var hjá Ölgerðinni á síðasta fjárhagsári, sem náði frá mars 2021 til febrúar 2022, og var hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) um 3,2 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum Innherja en ársreikningur fyrirtækisins hefur ekki verið gerður opinber. Aðlöguð EBITDA félagsins, þegar búið er að taka tillit til einskiptisliða, var nokkuð hærri en til samanburðar nam rekstrarhagnaður Ölgerðarinnar um 2,26 milljarðar króna á fjárhagsárinu þar áður og velta félagsins var þá samtals rúmlega 26 milljarðar.

Í kjölfarið á miklum vexti Ölgerðarinnar var farið í framkvæmdir í apríl í fyrra að nýju 1.700 fermetra húsnæði sem hefur yfir að ráða hátækniframleiðslulínu fyrir dósir. Var verksmiðjan gangsett í janúar síðastliðnum. Þá stendur einnig til að ráðast í endurnýjun á eldri verksmiðju en um að ræða fjárfestingarverkefni upp á samanlagt um 2,5 milljarða króna og þegar þeim er lokið er áætlað að framleiðslugeta Ölgerðarinnar á dósum hafi fjórfaldast.

Þá var sömuleiðis greint frá því síðasta sumar að Danól, dótturfélag Ölgerðarinnar, hefði tekið yfir hluta af viðskiptasamböndum heildsölunnar Ásbjörns Ólafssonar.

Ölgerðin á mörg af elstu og þekktustu vörumerkjum landsins á sínu sviði, til dæmis Egils Appelsín, Kristal, Egils Gull og Egils Malt, en tæplega helmingur af starfsemi félagsins er framleiðsla á eigin vörumerkjum. Auk þess er Ölgerðin með leyfi til þess að framleiða og selja vörur undir þekktum vörumerkjum frá fyrirtækjum Tuborg, Carlsberg Group og Pepsico.

Til viðbótar við framtakssjóðina Horn og Akur, sem eru að stórum hluta í eigu íslenskra lífeyrissjóða, og eignarhaldsfélagið OA fer félagið Sindrandi, sem er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, með 14 prósenta hlut í Ölgerðinni. Stækkuðu þau eignarhlut sinn í fyrirtækinu í byrjun ársins 2021 með kaupum á tíu prósenta hlut af félagi þeirra Andra og Októs. Gengið í þeim viðskiptum var 4,75 krónur á hlut sem verðmat hlutafé Ölgerðarinnar því á samtals um 13,3 milljarða króna.

Stjórnendur og hluthafar Ölgerðarinnar settu stefnuna á hlutabréfamarkað á sínum tíma og í árslok 2015 áformuðu þáverandi eigendur að selja hlut í fyrirtækinu og skrá það í Kauphöllina. Þeim áætlunum var hins vegar ýtt til hliðar nokkrum mánuðum síðar og í stað þess farin sú leið að selja fyrirtækið í beinni sölu. Það ferli endaði með kaupum Horns og Akurs ásamt hópi einkafjárfesta á tæplega 70 prósenta hlut haustið 2016 en á meðal seljenda var framtakssjóðurinn Auður I í rekstri Virðingar. Hlutafé Ölgerðarinnar í þeim viðskiptum var metið á meira en 11 milljarða króna.

Ölgerðin er ekki eina íslenska fyrirtækið sem áformar skráningu í Kauphöllina um þessar mundir en útlit er fyrir að þrjú félög verði skráð á markað í næsta mánuði. Fjarskiptafyrirtækið Nova hefur tilkynnt um skráningu á Aðalmarkað og áætlanir gera ráð fyrir að hún verði um miðjan júní. Þá undirbýr líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech tvíhliða skráningu á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum og á Íslandi en félagið stefnir á Firsth North-markaðinn í Kauphöllinni hér á landi. Samkvæmt núverandi áætlunum er gert ráð fyrir að skráning Alvotech á markað geti orðið að veruleika eftir um fjórar vikur.

Lágt vaxtastig ýtti verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði á síðasta ári og fleiri fyrirtæki horfðu af þeim sökum til þess möguleika að fara á markað. Á árinu 2021 voru fjögur félög skráð í Kauphöllina – Síldarvinnslan, Íslandsbanki, Play og Solid Clouds – og fjöldi hluthafa hefur á sama tíma margfaldast.

Í september næstkomandi mun íslenski hlutabréfamarkaðurinn færast upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) hjá vísitölufyrirtækinu FTSE sem mun setja skráð félög hér á landi í sigti marfalt stærri hóps erlendra fjárfestingarsjóða. 

Stóraukið innflæði í Kauphöllina, sem talið er að þessari breytingu muni fylgja, og skilvirkari verðmyndun gerir skráningu á markað að enn álitlegri kosti. „Þótt skráningarumhverfið hafi verið gott að undanförnu mun þetta auka möguleika fyrirtækja til fjármögnunar í Kauphöllinni og styðja þar með við skráningar,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í samtali við Innherja í síðasta mánuði.

„Eins og staðan er í dag erum við að telja allt upp í tíu félög sem gætu komið inn á markaðinn á þessu ári eða því næsta,“ sagði Magnús.


Tengdar fréttir

Breytingar á fram­kvæmda­stjórn Öl­gerðarinnar

Þrír einstaklingar koma nýir inn í framkvæmdastjórn Ölgerðarinnar samkvæmt nýju skipuriti. María Jóna Samúelsdóttir hefur tekið við framkvæmdastjórastöðu Danól, Guðmundur Pétur Ólafsson við stöðu framkvæmdastjóra sölusviðs óáfengra drykkja og Óli Rúnar Jónsson leiðir markaðssvið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.