Innherji

Ölgerðin setur stefnuna á hlutabréfamarkað í byrjun næsta árs

Hörður Ægisson skrifar
Velta Ölgerðarinnar á síðasta ári nam yfir 26 milljörðum króna.
Velta Ölgerðarinnar á síðasta ári nam yfir 26 milljörðum króna.

Stjórn Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, hefur tekið ákvörðun um að hefja formlegan undirbúning að skráningu félagsins á aðalmarkað Kauphallarinnar hér á landi.

Samkvæmt heimildum Innherja var af því tilefni nýlega gengið frá ráðningu á Kviku banka til að hafa umsjón með skráningarferlinu. Horft er til þess með skráningunni að bjóða að lágmarki fjórðungshlut í félaginu til sölu fremur en að sækja nýtt hlutafé í reksturinn en stærstu hluthafar Ölgerðarinnar eru framtakssjóðirnir Horn III, sem er í rekstri Landsbréfa, og Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða.

Áætlanir gera ráð fyrir því, að sögn þeirra sem þekkja vel til, að skráningin geti mögulega farið fram á öðrum ársfjórðungi næsta árs – skömmu eftir að fjárhagsár Ölgerðarinnar klárast í lok febrúar 2022 – en ljóst er að endanleg ákvörðun um slíkt mun alltaf ráðast af markaðsaðstæðum hverju sinni.

Á síðasta fjárhagsári Ölgerðarinnar, sem náði frá mars 2020 til febrúar 2021, nam heildarvelta fyrirtækisins rúmlega 26 milljörðum króna á meðan hagnaðurinn var tæplega 729 milljónir og hækkaði um liðlega 25 prósent á milli ára. Þá jókst EBITDA félagsins einnig og var um 2,26 milljarðar á árinu. Útlit er fyrir enn frekari rekstrarbata hjá Ölgerðinni á yfirstandandandi fjárhagsári, samkvæmt upplýsingum Innherja.

Í kjölfarið á miklum vexti Ölgerðarinnar var ráðist í framkvæmdir fyrr á árinu að nýju 1.700 fermetra framleiðsluhúsnæði en fjárfesting vegna húsnæðisins er vel á annan milljarð króna. Þá var einnig greint frá því í sumar að Danól, dótturfélag Ölgerðarinnar, hefði tekið yfir hluta af viðskiptasamböndum heildsölunnar Ásbjörns Ólafssonar.

Andri Þór Guðmundsson er forstjóri Ölgerðarinnar og fer jafnframt með helmingshlut í OA eignarhaldsfélaginu sem er þriðji stærsti hluthafi fyrirtækisins með 16 prósenta hlut.Vísir/Vilhelm

Ölgerðin á mörg af elstu og þekktustu vörumerkjum landsins á sínu sviði, til dæmis Egils Appelsín og Egils Malt. Auk þess er Ölgerðin með leyfi til þess að framleiða og selja vörur undir þekktum vörumerkjum frá fyrirtækjum Carlsberg Group og Pepsico.

Hættu við skráningu 2016

Auk sjóðanna Horns og Akurs, sem fara samanlagt með um 43 prósenta hlut í Ölgerðinni, eru aðrir helstu hluthafar OA eignarhaldsfélag, sem er í eigu Andra Þórs Guðmundssonar, forstjóra fyrirtækisins, og Óktós Einarssonar stjórnarformanna, og eignarhaldsfélagið Sindrandi, en það er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur. Fyrr á þessu ári minnkuðu Andri og Októ hlut sinn í Ölgerðinni úr 26 prósent í 16 prósent þegar þeir seldu 10 prósenta hlut til Sindranda sem fer í dag eftir kaupin með 14 prósenta hlut.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stjórnendur og hluthafar Ölgerðarinnar setja stefnuna á hlutabréfamarkað en í árslok 2015 áformuðu þáverandi eigendur að selja hlut í fyrirtækinu og skrá það í Kauphöllina. Þeim var áformum var hins vegar ýtt til hliðar nokkrum mánuðum síðar og í stað þess farin sú leið að selja fyrirtækið í beinni sölu. Það ferli endaði með kaupum Horns og Akurs ásamt hópi einkafjárfesta á tæplega 70 prósenta hlut haustið 2016 en á meðal seljenda var framtakssjóðurinn Auður I í rekstri Virðingar. Hlutafé Ölgerðarinnar í þeim viðskiptum var metið á meira en 11 milljarða króna.

Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði á síðustu misserum og fleiri fyrirtæki hafa af þeim sökum horft til þess möguleika að fara á markað. Það sem af er þessu ári hafa fjögur félög verið skráð í Kauphöllina – Síldarvinnslan, Íslandsbanki, Play og Solid Clouds – og fjöldi hluthafa hefur á sama tíma margfaldast.

Ekki náðist í Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, við vinnslu fréttarinnar.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Fyrsta skóflustungan tekin að nýju húsi Ölgerðarinnar

Forsvarsmenn Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf. tóku í morgun fyrstu skóflustunguna að nýju 1.700 fermetra húsnæði fyrirtækisins. Fjárfesting í húsnæðinu er vel á annan milljarð króna og vill Ölgerðin sýna skýran vilja til að halda framleiðslu sinni áfram hér á landi um ókomna framtíð, samkvæmt tilkynningu.

Fjórfaldaði fjárfestinguna í Ölgerðinni á sex árum

Héraðsdómur Reykjavíkur telur ljóst að félagið ET Sjón, sem er í eigu augnlæknisins Eiríks Ingvars Þorgeirssonar, hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna fjárfestingar sinnar í Ölgerðinni. Ástæðan sé sú að félagið hafi ríflega fjórfaldað fjárfestingu sína á sex árum og hlotið 27 prósenta árlega arðsemi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×