Viðskipti innlent

DiCaprio fjárfestir í fyrirtæki Ingvars

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stórleikarinn Leonardo DiCaprio hefur gengið til liðs við fyrirtækið Vitrolabs, sem fatahönnuðurinn Ingvar Helgason stofnaði og stjórnar, sem fjárfestir.
Stórleikarinn Leonardo DiCaprio hefur gengið til liðs við fyrirtækið Vitrolabs, sem fatahönnuðurinn Ingvar Helgason stofnaði og stjórnar, sem fjárfestir. Vísir/Getty

Stórleikarinn og loftslagsaðgerðasinninn Leonardo DiCaprio hefur gengið til liðs við Líftækni og hönnunarfyrirtækið Vitrolabs, sem fatahönnuðurinn Ingvar Helgason stofnaði og stýrir, sem fjárfestir. 

DiCaprio tilkynnti þetta á Twitter í dag. Hann skrifaði í tilkynningunni að starfsemi Vitrolabs bjóði upp á spennandi möguleika. 

„Það gleður mig að ganga til liðs við fyrirtækið sem fjárfestir,“ skrifar DiCaprio í tístinu. 

Vitrolabs var stofnað af fatahönnuðinum Ingvari Helgasyni og var það samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins um það í nóvember metið á um 11 milljarða íslenskra króna, eftir þá nýjustu fjármögnunarumferð félagsins. 

Vitrolabs stefnir á að gera fataframleiðendum kleift að þróa fatnað úr leðri án þess að að deyða dýr og hefur undanfarin ár gert tilraunir í von um að rækta kúaleður á rannsóknarstofu með stofnfrumutækni. 

Fyrirtækið hefur meðal annars fengið umfjöllun hjá tískutímarirtinu Vogue, sem er það virtasta í sínum geira. Fram kemur í grein Vogue, sem birtist í dag og fjallaði meðal annars um aðkomu DiCaprio, að velgengni fyrirtækisins varpi ljósi á vöxtinn í þróun leðurlíkja. Undanfarin ár hafa ýmis leðurlíki komið á markað, til dæmis pleður sem er leðurlíki gert úr plasti. Framleiðsla Vitrolabs er þó annars konar, þar sem framleiða á alvöru dýraleður en án þess að það komi af dýrum, sem þurfi í leiðinni að deyða. 

„Það sem við viljum gera er að breyta því hvaðan þú færð leðrið,“ segir Ingvar í samtali við Vogue. 

„Það sem er svo magnað við leður er hvað hægt er að nýta það í margt og listin og hugmyndaflugið ráða því hver lokaútkoma leðursins er eftir vinnslu. Það er mjög spennandi fyrir okkur að fá að vinna með reyndum samstarfsmönnum á þessum vettvangi, sem mun draga fram það besta í leðrinu okkar.“

Fram kemur í umfjöllun Viðskiptablaðsins frá því í nóvember að framleiðsla Vitrolabs er sögð mun umhverfisvænni en framleiðsla á hefðbundnu leðri. Alla jafna nýtist um 80 prósent af húð dýranna, auk þess sé dýrahald auðlindafrekt og um fimmtíu milljónir dýra séu drepnar á hverju ári fyrir leður og tískugeirann. 

Ekki náðist í Ingvar við vinnslu fréttarinnar. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×