Innherji

Sjóður Stefnis hagnaðist um fimm milljarða við sölu á Verne Global

Hörður Ægisson skrifar
Nýr eigandi Verne Global áformar að fjárfesta fyrir um 12 milljarða króna í því skyni að auka afkastagetu gagnaversins sem mun verða eftir framkvæmdirnar um 40 megawött.
Nýr eigandi Verne Global áformar að fjárfesta fyrir um 12 milljarða króna í því skyni að auka afkastagetu gagnaversins sem mun verða eftir framkvæmdirnar um 40 megawött. Verne Global

Framtakssjóður í rekstri Stefnis, dótturfélags Arion banka, bókfærði hjá sér yfir 5,4 milljarða hagnað þegar allt hlutafé Verne Global, sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ, var selt um haustið í fyrra en sjóðurinn átti rúmlega 28 prósenta hlut í íslenska félaginu.

Þetta má lesa út úr nýbirtum ársreikningi fjárfestingafélagsins SF VI, sem heldur utan um rekstur framtakssjóðsins, en söluandvirði eignarhlutarins nam samtals um 10,4 milljörðum króna. Eftir söluna á hlutnum í gagnaverinu var hlutafé félagsins lækkað og hluthafar, sem eru einkum íslenskir lífeyrisjóðir, greiddir út en stefnt er að slitum á sjóðnum á þessu ári.

Sjóður Stefnis kom fyrst inn í hluthafahóp Verne Global í ársbyrjun 2015.

Tilkynnt var um kaup framtakssjóðsins Digital 9 Infrastructure, sem er í stýringu breska fjárfestingafélagsins Triple Point, á Verne Global í september á liðnu ári fyrir 231 milljón punda, jafnvirði 40,5 milljarða íslenskra króna á gengi þess tíma. Auk sjóðsins í rekstri Stefnis voru stærstu hluthafar gagnaversins Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, Wellcome Trust og General Catalyst. Verðmiðinn á gagnaverinu jafngilti EBITDA-margfaldara upp á um tuttugu en EBITDA-hagnaður Verne Global var sagður um 11,5 milljónir punda.

Nýr eigandi Verne Global greindi frá því í byrjun þessa árs að hann áformaði að fjárfesta jafnvirði um 12 milljarða króna í því skyni að auka afkastagetu gagnaversins sem mun verða eftir framkvæmdirnar um 40 megawött.

Á örfáum mánuðum undir lok síðasta árs voru öll þrjú stærstu gagnaverin á Íslandi – Verne Global, atNorth og Borealis Data Center – seld til erlendra fjárfestingarsjóða. Í umfjöllun Innherja í febrúar síðastliðnum kom fram að afar samkeppnishæft orkuverð og ört vaxandi áhugi alþjóðlegra fjárfestingarsjóða á gagnaversiðnaði, hefði skilaði sér í því að gagnaverin þrjú hafi verið seld fyrir samanlagt yfir 100 milljarða króna.

Með miklum og stöðugum vexti gagnavera á heimsvísu hefur breiðari hópur fjárfesta, meðal annars sjóðir sem sérhæfa sig í fjárfestingum í innviðum, komið að kaupum á slíkum fyrirtækjum á síðustu misserum og árum og algengt er verðmiðinn í þeim viðskiptum jafngildi liðlega 20-földum EBITDA-hagnaði þeirra.

Þá greindi Innherji frá því í undir lok síðasta mánaðar að Íslandsbanki væri kominn í einkaviðræður um sölu á hátæknigagnaverinu Reykjavík DC á Korputorgi en bankinn tók yfir gagnaverið á síðasta ári vegna fjárhagsvandræða. Um er að ræða innlenda aðila sem njóta stuðnings frá erlendum fjárfestum og gæti salan gengið í gegn á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Íslandsbanki kominn í einkaviðræður um sölu á gagnaverinu á Korputorgi

Íslandsbanki er samkvæmt heimildum Innherja kominn í einkaviðræður um sölu á hátæknigagnaverinu Reykjavík DC á Korputorgi en bankinn tók yfir gagnaverið á síðasta ári vegna fjárhagsvandræða. Um er að ræða innlenda aðila sem njóta stuðnings frá erlendum fjárfestum og gæti salan gengið í gegn á næstu vikum. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.