Körfubolti

Sigurður Gunnar sá fyrsti til að fara í úrslitaeinvígi með fjórum félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson fagnar með Tindastólsliðinu í vetur en hann þekkir það vel að fara langt í úrslitakeppninni.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson fagnar með Tindastólsliðinu í vetur en hann þekkir það vel að fara langt í úrslitakeppninni. Vísir/Bára Dröfn

Það fór ekkert á milli mála að Sigurður Gunnar Þorsteinsson ætlaði sér að komast í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta um helgina.

Sigurður Gunnar fór á kostum og átti sinn besta leik í úrslitakeppninni í þar þegar Tindastóll sendi deildarmeistara Njarðvíkur í sumarfrí með 89-83 sigri í Síkinu.

Sigurður Gunnar var með 20 stig, 9 fráköst og 8 fiskaðar villur á tæpum 25 mínútum en þetta var í fyrsta sinn sem hann skorar tuttugu stig í Tindastólsbúningnum.

Sigurður Gunnar þekkir það vel að komast í úrslitaeinvígið en þetta verður það sjöunda hjá honum á ferlinum. Það sem meira er að nú endurskrifar hann söguna með því að setja merkilegt met.

Sigurður Gunnar verður nefnilega sá fyrsti til að fara í úrslitaeinvígi í úrslitakeppni karla með fjórum félögum. Jú Stólarnir eru ekki fyrsta liðið sem njóta góðs af því að vera með Sigurð Gunnar í sínu liði.

Nökkvi Már Jónsson hefur átt þetta met síðan að hann fór í úrslitin með KR árið 1998. Nökkvi hafði áður farið fjórum sinnum í úrslitaeinvígið með Keflavík og tvisvar með Grindavík. Hann átti eftir að fara í úrslit tvisvar í viðbót með Grindavík. Á árunum 1989 til 1998 náði Nökkvi hins vegar að spila um Íslandsmeistaratitilinn sjö sinnum á aðeins tíu tímabilum.

Sigurður Gunnar jafnaði met Nökkva þegar hann komst í úrslitin með ÍR-ingum fyrir þremur árum síðar en ÍR varð þá að sætta sig við tap í oddaleik á móti KR.

Sigurður Gunnar hafði aftur á móti náð því að verða Íslandsmeistari með bæði Keflavík (2008) og Grindavík (2012 og 2013) auk þess að fara líka í lokaúrslitin 2010 (með Keflavík) og 2014 (með Grindavík).

Nökkvi náði ekki að vinna titilinn með Grindavík eða KR. Það hafa nokkrir leikmenn náð því að vinna Íslandsmeistaratitilinn með tveimur félögum í úrslitakeppni en enginn hefur gert það með þremur félögum.

Sigurður Gunnar fær því tækifæri til að setja annað met í þessari úrslitakeppni takist honum og félögum hans að vinna Valsmenn í úrslitaeinvígi Subway deildarinnar en einvígið hefst núna á föstudagskvöldið kemur.

  • Úrslitaeinvígi Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar á ferlinum:
  • 2008: Íslandsmeistari með Keflavík
  • 2010: Silfur með Keflavík
  • 2012: Íslandsmeistari með Grindavík
  • 2013: Íslandsmeistari með Grindavík
  • 2014: Silfur með Grindavík
  • 2019: Silfur með ÍR
  • 2022: Gull eða silfur með Tindastól



Fleiri fréttir

Sjá meira


×