Viðskipti innlent

Icelandair tapaði 7,4 milljörðum en tekjur jukust mjög

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Icelandair tapaði 7,4 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins. Tekjur félagsins þrefölduðust samanborið við sama ársfjórðung á síðasta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til kauphallar vegna uppgjörs á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Í uppgjörinu kemur fram að heildartekjur Icelandair hafi aukist verulega samanborið við sama ársfjórðung á síðasta ári. Þá voru tekjur félagsins 7,3 milljarðar króna en nú 20,3 milljarðar króna. Farþegatekjur félagsins áttfaldast.

Félagið tapaði hins vegar 7,4 milljörðum króna á ársfjórðungnum sem meira tap en á sama ársfjórðungi í fyrra, þegar tapið nam 5,9 milljörðum króna.

Í uppgjörinu kemur fram að útgjöld í fjórðungnum séu meðal annars tilkomin vegna undirbúnings flugáætlunar yfir háönn sumarsins. Tvö hundruð starfsmenn hafa verið ráðnir til félagsins.

Þá er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra félagsins, ýmsir þættir hafi haft áhrif á rekstrarniðustöðuna.

„[S]vo sem mikil hækkun eldsneytisverðs, áhrif ómikron afbrigðisins á eftirspurn og umtalsverður útlagður kostnaður á fjórðungnum í tengslum við undirbúning metnaðarfullrar flugáætlunar okkar í sumar,“ segir Bogi Nils en tekið er fram í uppgjörinu að eldsneytisverð hafi hækkað um 75 prósent á milli ára.

Flugframboð félagsins var 58 prósent af framboði ársins 2019 og sætanýting var 67,2 prósent að meðaltali, og 74 prósent í síðasta mánuði.

Segir Bogi að bókunarstaða sumarsins sé góð.

„Bókunarstaðan fyrir sumarið er góð á öllum mörkuðum okkar. Við gerum ráð fyrir að í öðrum ársfjórðungi muni flugáætlun okkar nema um 77% af áætlun okkar árið 2019 og um 85% í þriðja ársfjórðungi. Nú þegar við komum út úr heimsfaraldrinum er ljóst að Ísland er mjög eftirsóttur áfangastaður og er heildarframboð flugs í gegnum Keflavíkurflugvöll umfram það sem það var árið 2019,“ segir Bogi.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×