Körfubolti

Richotti: Þetta er alls ekki búið

Árni Jóhannsson skrifar
NIcolas Richotti skoraði 25 stig og hafði góð áhrif á lið sitt
NIcolas Richotti skoraði 25 stig og hafði góð áhrif á lið sitt JB

Nicolas Richotti, leikstjórnandi Njarðvíkinga, var að vonum gífurlega ánægður með sigur sinna manna fyrr í kvöld á Tindastóli 93-75. Honum fannst að andlegi þátturinn hafi spilað stærri rullu en körfuboltageta. Hann var spurður að því hvað hafi skilað sigrinum.

„Við sýndum ástríðu, hjarta og stolt í kvöld. Við vissum að við þyrftum að stíga upp og nota alla hvatningu sem við gátum fundið. Við vorum ekki ánægðir með það hvernig hinir tveir leikirnir enduðu en sýndum gæði okkar. Þetta er alls ekki búið.“

Nico var spurður út í síðasta leik þar sem Njarðvíkingar töpuðu niður 18 stiga forskoti og leiknum og hvernig Njarðvíkingar hefðu nýtt það í þessum leik.

„Við ræddum þann leik og leikhlutann. Við spiluðum góðan körfubolta og vorum með gott forskot í fjórða leikhluta síðan hrundi allt bara. Við ræddum þetta og unnum í því. Það var andlegi hlutinn sem skipti meira máli en eitthvað annað. Við spiluðum mjög vel í þriðja leikhluta og vorum í svipaðri stöðu í kvöld en bekkurinn okkar hélt taktinum upp hjá okkur og við náðum að jafna ákafann í leik þeirra til að ná í þennan sigur.“

Nico skoraði 25 stig, gaf fjórar stoðsendingar og stal þremur boltum og var besti maður vallarins að mati blaðamanns. Hann var spurður út í ástandið á sjálfum sér en hann varð fyrir hnjaski undir lok leiksins.

„Mér líður vel. Ég fékk högg hérna í fjórða leikhluta og finn aðeins fyrir því en ég ætti að vera góður og tilbúinn í næsta leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×