Viðskipti innlent

Össur hagnaðist um 1,2 milljarða króna

Eiður Þór Árnason skrifar
Höfuðstöðvar Össurar eru á Grjóthálsi í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Össurar eru á Grjóthálsi í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Stoðtækjaframleiðandinn Össur hagnaðist um níu milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 1,2 milljarða íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi 2022. Sala nam alls 170 milljónum bandaríkjadala, eða 21,8 milljörðum króna. Söluvöxtur nam 10% í staðbundinni mynt og innri vöxtur var 6% á ársfjórðungnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Össuri en þann 24. febrúar hætti fyrirtækið að selja vörur til Rússlands vegna innrásarinnar í Úkraínu og hyggst Össur viðhalda því á meðan ástandið er óbreytt. Sala til Rússlands var um 1% af sölu félagsins í fyrra.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er óbreytt og gerir að sögn Össurar ráð um 6-9% innri vexti, um 20-21% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 27 milljónum bandaríkjadala, eða 3,4 milljörðum íslenskra króna, á fyrsta ársfjórðungi sem jafngildir 16% af veltu tímabilsins. Innri vöxtur var 6% á stoðtækjum og 5% á spelkum og stuðningsvörum.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins gekk Össur frá kaupum á fyrirtæki með alls 10 milljónir Bandaríkjadala, um 1,3 milljarða íslenskra króna, í ársveltu.

Sett á markað fyrsta stoðtækjahnéð með innbyggðum mótor

Að sögn Sveins Sölvasonar, forstjóra Össurar, sjá stjórnendur jákvæða eftirspurn eftir stoðtækjum, spelkum og stuðningsvörum á helstu mörkuðum fyrirtækisins.

„Við skiluðum góðum innri vexti þrátt fyrir að hafa orðið fyrir áhrifum af COVID-19 á fyrstu mánuðum ársins. Við erum að fást við skammtíma verðhækkanir í aðfangakeðjunni en gert er ráð fyrir að það dragi úr áhrifum þeirra.

Við höfum nú sett Power Knee, heimsins fyrsta stoðtækjahné með innbyggðum mótor, á markað á öllum helstu markaðssvæðum okkar með góðum árangri og fengið framúrskarandi endurgjöf. Vegna áherslu okkar á sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð gáfum við út okkar árlegu sjálfbærniskýrslu í ársfjórðungnum og erum staðráðin í að halda áfram að veita notendum okkar líf án takmarkana,“ segir Sveinn í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×