Skoðun

Sterkari saman

Jóhanna M. Þorvaldsdóttir skrifar

Það eru ekki mörg sveitarfélög sem geta státað sig af því að hafa námsframboð á öllum skólastigum. Sveitarfélagið okkar, Borgarbyggð, býr svo vel að hafa fimm leikskóla, tvo grunnskóla, menntaskóla og tvo háskóla. Innra starf hvers skóla er einstakt þar sem þeir hafa í gegnum tíðina mótað eigin áherslur hver fyrir sig og í samstarfi við aðra.

Eitt mikilvægasta verkefni sveitarstjórnar hverju sinni er að standa við bakið á og efla lærdómssamfélag hvers sveitarfélags fyrir sig sem skólarnir, nemendur, starfsfólk og íbúar mynda.

Fjórða iðnbyltingin er nú í veldisvexti og á sama tíma er ofarlega á baugi mikilvægi þess að undirbúa nemendur fyrir störf framtíðarinnar sem í raun og veru enginn veit hvers eðlis verða. Því er mikilvægt að skólarnir séu vel búnir þegar kemur að tækni. Eitt tæki per nemanda í unglingadeild ætti að vera markmið næstu ára. Með aukinni áherslu á upplýsingatækni, upplýsingalæsi, ábyrga netnotkun, stafræna borgaravitund og notkun á tólum tæknarinnar í sveitarfélaginu öllu.

Skólarnir þurfa frelsi og tækifæri til nýsköpunar í skólastarfi, til eflingar á innra starfi. Þar sem vinnuaðstaða og umhverfi nemenda og starfsfólks er til fyrirmyndar. Til þess þurfum við að skoða vandlega með öllum þeim aðilum sem skólasamfélagið mynda, hver þörfin er og hvernig við getum mætt henni. Í þessu samhengi er mikilvægt að hlusta á raddir nemenda því hver veit betur en þjónustuþegarnir sjálfir í hvers konar umhverfi, aðstæðum og með hvað hætti þeim hentar best að sinna námi sínu.

Samfylkingin og Viðreisn stefna ekki að lokunum skóla í uppsveitum heldur vilja ýta undir uppbyggingu og fólksfjölgun á þeim svæðum. Þörf er fyrir frekari fjölgun lóða í þéttbýliskjörnum og raunar er nú þegar hafin skipulagsvinna að stóru hverfi við Reykholt. Verið er að klára gatnagerð á Varmalandi og á Hvanneyri á svæði sem búið er að skipuleggja. Þá er einnig unnið að því að finna fleiri ákjósanlegar lóðir, fyrir fjölgun íbúa og fjölbreytta atvinnustarfsemi.

Það blasir því við að tækifærin til uppbyggingar í Borgarbyggð eru mörg en til þess að laða fólk að þarf öll grunnþjónusta að vera til staðar. Það er markmið Samfylkingar og Viðreisnar á næsta kjörtímabili að efla menntastefnu Borgarbyggðar og koma skólum sveitarfélagsins í fremstu röð. Það er mikilvægt að gera með uppbyggingu innviða og fagþekkingar skólasamfélagsins. Þar sem lýðræðisleg vinnubrögð eru höfð að leiðarljósi þar sem raddir allra fá áheyrn.

Höfundur er grunn- og framhaldsskólakennari og skipar 9. sæti Samfylkingar og Viðreisnar í Borgarbyggð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×