Handbolti

Reiður út í íslensk stjórnvöld: „Móðgandi hvernig þeir koma fram við þetta landslið okkar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er búinn að fá nóg af getuleysi stjórnvalda þegar kemur að málefnum nýrrar þjóðarhallar.
Guðmundur Guðmundsson er búinn að fá nóg af getuleysi stjórnvalda þegar kemur að málefnum nýrrar þjóðarhallar. vísir/hulda margrét

Þrátt fyrir að íslenska karlalandsliðið hafi tryggt sér sæti á HM 2023 með átta marka sigri á Austurríki, 34-26, sauð á Guðmundi Guðmundssyni eftir leik. Landsliðsþjálfarinn sendi stjórnvöldum tóninn og sagði ótækt að Ísland ætti ekki þjóðarhöll.

Leikurinn í gær fór fram á Ásvöllum þar sem Laugardalshöllin er ekki leikhæf. Þar að auki er hún yfir sextíu ára gömul og lengi verið á undanþágu.

„Við erum þakklátir Haukum fyrir að fá að spila í þeirra húsi en það er rosalega sorglegt að íslenska þjóðin eigi ekki þjóðarhöll. Það er óásættanlegt,“ sagði Guðmundur við Vísi eftir leikinn í gær.

„Menn verða að setjast niður, úr öllum stjórnmálaflokkum, og klára þetta mál með sóma. Það er ekki einu sinni að við getum komist á parketið á Laugardalshöllinni. Það hefur tekið eitt og hálft ár að vesenast með það.“

Guðmundur segir að stjórnvöld sýni íslensku íþróttafólki vanvirðingu með því að bjóða því ekki upp á viðunandi aðstöðu.

„Ég skil þetta ekki. Þetta er móðgandi á margan hátt, hvernig þeir koma fram við þetta landslið okkar sem er stórkostlegt og til alls líklegt í framtíðinni,“ sagði Guðmundur.

„Mér finnst kominn tími til að menn úr öllum flokkum setjist niður og geri eitthvað í málinu í staðinn fyrir velkja þessu fram og til baka, tafsa, þykjast ætla að gera eitthvað en gera svo ekki neitt. Það er kominn tími á það. Mér er alveg sama hvaða stjórnmálaflokk á við, þeir eru allir á sama stað.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.