Innherji

Starfsmenn og eigendur ráðgjafa sem keyptu í útboðinu ekki selt bréfin

Starfsmenn Íslandsbanka og stærsti eigandi Íslenskra verðbréfa, sem tóku þátt hlutafjárútboði Íslandsbanka í lok síðasta mánaðar á sama tíma og fjármálafyrirtækin voru bæði á í hópi ráðgjafa Bankasýslunnar við sölu á hlutum ríkissjóðs, hafa ekki selt neitt af þeim bréfum sem þeir keyptu í útboðinu. 

Hörður Ægisson skrifar
Íslandsbanki og Íslensk verðbréf voru á meðal átta fjármálafyrirtækja sem voru söluráðgjafar við útboð Bankasýslunnar. 

Starfsmenn Íslandsbanka og stærsti eigandi Íslenskra verðbréfa, sem tóku þátt hlutafjárútboði Íslandsbanka í lok síðasta mánaðar á sama tíma og fjármálafyrirtækin voru bæði á í hópi ráðgjafa Bankasýslunnar við sölu á hlutum ríkissjóðs, hafa ekki selt neitt af þeim bréfum sem þeir keyptu í útboðinu. 

Áður hefur verið fullyrt í fjölmiðlum að starfsmenn og eigendur söluráðgjafa væru ekki lengur skráðir fyrir hlutum í bankanum þremur vikum eftir að útboðinu lauk.

Á meðal þeirra sem fjárfestu í útboðinu voru Ómar Özcan og Geir Oddur Ólafsson, starfsmenn verðbréfamiðlunar Íslandsbanka, og keyptu þeir fyrir samtals um 28 milljónir en bankinn var sem kunnugt er einn umsjónaraðila við söluferlið. Samkvæmt lista yfir alla hluthafa Íslandsbanka miðvikudaginn 13. apríl síðastliðinn, sem Innherji hefur séð, er Ómar skráður fyrir 230.658 hlutum að nafnvirði, sama og hann keypti fyrir útboðinu að fjárhæð tæplega 27 milljónir króna, og þá fer Geir Oddur með 9.615 hluti að nafnvirði, en það er jafnframt sama magn af bréfum og hann fékk úthlutað til kaupa í útboðinu fyrir rúmlega 1,1 milljón króna. Eignarhlutir þeirra beggja eru skráðir undir eigin nafni.

Þá sýnir hluthafalistinn einnig að eignarhaldsfélagið Björg Finance, sem er í eigu Þorbjargar Stefánsdóttur, eiginkonu framkvæmdastjóra Íslenskra verðbréfa og er eigandi helmingshlutar í verðbréfafyrirtækinu, hefur ekki selt þá hluti sem það keypti í útboðinu fyrir 22,5 milljónir króna, heldur frekar mögulega aukið við eignarhlut sinn eftir að því lauk. Björg Finance er skráð fyrir 328.974 hlutum að nafnvirði í Íslandsbanka – markaðsvirði þess hlutar er í dag um 42 milljónir króna – sem er nokkuð meira en félagið keypti fyrir útboðinu. 

Íslensk verðbréf voru á meðal söluráðgjafa sem Bankasýslan fékk til að annast útboðið sem lauk 23. mars síðastliðinn þegar ríkið seldi 22,5 prósenta hlut fyrir samtals tæplega 53 milljarða króna.

Þrír aðrir fjárfestar sem tengjast Íslandsbanka og keyptu jafnframt í útboðinu voru meðal annars Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs, Ari Daníelsson, stjórnarmaður í bankanum, og Ríkharður Daðason, fjárfestir og eiginmaður samskiptastjóra Íslandsbanka. Viðskipti þeirra með bréf í bankanum eru flöggunarskyld, þar sem þeir eru skilgreindir innherjar, og hefur eignarhlutur þeirra haldist óbreyttur eftir að útboðinu lauk.

Fram kom í frétt Kjarnans fyrr í vikunni, sem var sögð byggjast á samanburði á hluthafalista Íslandsbanka fyrir útboðið og eins hann leit út í byrjun vikunnar, að alls 132 þeirra 207 fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu hafi á því tímabili selt sig niður að einhverju eða öllu leyti. Þar væri einkum um að ræða „litla“ fjárfesta og í fréttinni sagði að á meðal þeirra sem væru ekki lengur skráðir fyrir hlutum í Íslandsbanka væru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa sem ráðnir voru til að sinna útboðinu.

Listi yfir alla hluthafa bankans sýnir hins vegar að viðkomandi starfsmenn Íslandsbanka og eigandi að helmingshlut Íslenskra verðbréfa eru enn sannarlega skráðir fyrir þeim hlutum sem þeir keyptu í útboðinu.

Þátttaka starfsmanna söluráðgjafa Bankasýslunnar hefur verið gagnrýnd og rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabankans beinist meðal annars að þeim þætti útboðsins. Íslandsbanki hefur gefið þau svör að þátttaka starfsmanna verðbréfamiðlunar bankans í útboðinu, sem voru ekki taldir vera innherjar, hafi verið með heimild regluvarðar. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 síðastliðinn miðvikudag að hlutabréfakaup starfsmanna söluráðgjafanna fela í sér hagsmunaárekstur og væru vonbrigði. Hann þekki ekki til þess að slíkt framferði líðist við hlutafjárútboð á erlendum mörkuðum og það geti skaðað orðspor fjármálafyrirtækjanna.

Innherji hefur áður greint frá því að eignarhaldsfélagið Steinn, sem er í meirihlutaeigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og fjárfestingafélagið Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu og rekur meðal annars Ísfélag Vestmannaeyja, hafi ekki selt neitt af þeim bréfum sem þau keyptu í útboðinu.

Forsvarsmenn félaganna staðfestu þetta í vikunni. Kaupin, sem voru í báðum tilfellum gerð í gegnum framvirka samninga hjá bönkum, námu samtals um 770 milljónum króna og jafngiltu samanlagt rúmlega 0,3 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka.

Það sama á við um tvö félög í eigu Þórðar Más Jóhannessonar, fyrrverandi stjórnarformanns Festar, sem keyptu í útboðinu fyrir um 108 milljónir króna. Í samtali við Innherja staðfesti Þórður Már að hann hafi ekki selt eitt einasta af þeim bréfum sem félögum í hans eigu var úthlutað til að kaupa í hinu lokaða hlutafjárútboði.

Í fyrrnefndri frétt Kjarnans, þar sem fullyrt var að mikill meirihluti fjárfesta sem tók þátt í útboðinu væri búinn að losa um alla sína hlut eða selja sig niður, sagði að á meðal þeirra fjárfesta sem væru ekki lengur skráðir fyrir hlutum í Íslandsbanka væru fyrrnefnd félög í eigu Þorsteins Más, Guðbjargar og Þórðar Más. Þá kom jafnframt að sama ætti við um aðra stærri fjárfesta, sem hefðu keypt í útboðinu fyrir nokkur hundruð milljónir, eins og meðal annars tvö félög í eigu bræðranna Ágúst og Lýðs Guðmundssonar, oftast kenndir við Bakkavör, félag í eigu Pálma Haraldssonar, og fjárfestingafélagið Stoðir.

Öll áttu þessi félög það hins vegar sammerkt að hafa fjárfest í útboðinu í gegnum framvirka samninga hjá sínum viðskiptabönkum og þar af leiðandi birtust þau aldrei á hluthafalista Íslandsbankans eftir að útboðinu lauk heldur eru þeir eignarhlutir skráðir á viðkomandi banka og í vörslu þeirra.

Samkvæmt heimildum Innherja hafa félögin Frigus fjárfestingar og Frigus II, sem eru í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs, minnkað við hlut sinn í Íslandsbanka eftir útboðið en eiga eftir sem áður enn megnið af þeim bréfum sem þau keyptu fyrir samtals um 470 milljónir í útboðinu. Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um hvort fjárfestingafélagið Sólvöllur, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og keypti fyrir 225 milljónir, hafi selt eða minnkað við hlut sinn í bankanum. Stoðir tjá sig ekki um stöðu sína í framvirkum samningum í einstökum skráðum fyrirtækjum og hvort það hafi selt – eða bætt við sig – í þeim en fjárfestingafélagið keypti í útboði Íslandsbanka fyrir 175 milljónir.

Útilokað er að fullyrða með mikilli vissu um það hversu margir af þeim samtals 207 fjárfestum sem tóku þátt í útboðinu séu búnir að selja öll sín bréf eða stóran hluta þeirra frá því að það kláraðist. Stór hópur íslenskra eignarhaldsfélaga og einkafjárfesta keypti í Íslandsbankaútboðinu – fjöldi einkafjárfesta var 140 talsins – með fjármögnun frá bönkum, öðrum en Íslandsbanka sjálfum sem er óheimilt að veita lán fyrir kaupum á bréfum í eigin félagi, í gegnum framvirka samninga.

Í dag eiga Arion banki, Landsbankinn og Kvika banki samanlagt um 4,3 prósenta hlut í Íslandsbanka, eða sem jafngildir um 11 milljörðum að markaðsvirði. Fullyrða má að þeir eignarhlutir komi einkum til vegna framvirkra samninga sem bankarnir gerðu við fjölmarga viðskiptavini sína í tengslum við útboðið en auk þess er um að ræða hluti sem eru á veltubók sömu viðskiptabanka.

Í tilkynningu sem Bankasýslan sá ástæðu til að senda frá sér í gær, vegna fréttaflutnings um að stór hluti fjárfesta í útboðinu væri búinn að selja bréf sín, kemur fram að 34 fjárfestar hafi minnkað eignarhlut sinn í Íslandsbanka frá því að útboðið kláraðist en 25 fjárfestar hafi hins vegar aukið við hlut sinn. Þá segir Bankasýslan að um 60 fagfjárfestar í útboðinu birtast ekki á hluthafalista Íslandsbanka. Erfitt sé að fullyrða um nákvæman fjölda þeirra sem hafa selt eignarhluti sína að fullu, eins og Innherji hefur áður fjallað um, meðal annars þar sem sömu fjárfestar hafi mögulega verslað hluti á safnreikningum, fjármagnað hluti hjá fjármálastofnunum í gegnum framvirka samninga eða eru eignastýringaraðilar.

„Í þessu sambandi er vakin athygli á því að hlutafjáreign fjármálastofnana í Íslandsbanka fór úr 0,3 prósent fyrir útboð í 4,1 prósent af heildar hlutafé þann 11. apríl. Sú aukning samsvarar um 75 prósent af eignarhlut þeirra fjárfesta sem keyptu í útboðinu en birtast ekki á hluthafalistanum,“ sagði í tilkynningu Bankasýslunnar.

Verðið í útboði Bankasýslunnar var ákvarðað 117 krónur á hlut. Það var 4 prósentum lægra en lokaverð síðasta viðskiptadags og í takt við það sem búast mátti við þegar jafn stór hlutur er seldur – hann jafngilti veltu síðustu 300 daga með bréf í Íslandsbanka – með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi á markaði. Í dag stendur gengið í 127 krónum á hlut og hefur því hækkað um liðlega átta prósent.

Mikil velta hefur verið með bréf Íslandsbanka frá því að útboðinu lauk 23. mars síðastliðinn og nemur hún frá þeim tíma samtals um 20 milljörðum. Á meðal þeirra fjárfesta sem hafa selt stóran hluta þeirra bréfa sem þeim var úthlutað í útboðinu, eins og fram kemur í áðurnefndri frétt Kjarnans, eru nokkrir erlendir fjárfestingasjóðir en þeir keyptu fyrir samtals um 8 milljarða, eða alls 15 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkið seldi.

Íslenskir lífeyrissjóðir hafa að undanförnu verið að bæta talsvert við hlut sinn í bankanum. Úthlutanir til lífeyrissjóða námu að jafnaði um 40 prósent af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í útboðinu en líta verður til þess að lífeyrissjóðir sækjast eftir því að kaupa mun stærri hlut í krónum talið en flestir aðrir sem skiluðu inn tilboðum. Samanlagður eignarhlutur íslenskra lífeyrissjóða í dag, eftir uppkaup þeirra á bréfum að undanförnu, er farinn að nálgast tæplega 30 prósent. Íslenska ríkið er eftir sem áður langsamlega stærsti eigandi bankans með 42,5 prósenta eignarhlut sem er í dag metinn á um 109 milljarða króna.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur verið afar umfangsmikill kaupandi á eftirmarkaði með bréf í Íslandsbanka í kjölfar útboðs Bankasýslunnar, eins og Innherji hefur áður fjallað um. Hefur sjóðurinn á þeim tíma bætt við sig sem nemur 1,4 prósenta eignarhlut sem er stærri hlutur en hann fékk úthlutað í útboðinu.

Mikill styr hefur staðið um söluferlið á Íslandsbanka og hafa sumir stjórnarþingmenn VG sagt gagnrýnivert hvernig Bankasýslan hafi haldið á málum við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins og að auðveldara verði að endurheimta traust almennings ef stjórn og forstjóri stofnunarinnar myndu víkja.

Á meðal þeirra sem keyptu voru samtals 140 innlendir einkafjárfestar fyrir samanlagt 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi. Þeir einkafjárfestar sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins.

Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að gera úttekt á söluferli Íslandsbanka og er niðurstöðu hennar að vænta í júní. Bankasýsla ríkisins, sem sá um framkvæmd sölunnar fyrir hönd ríkissjóðs, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem öllum sjónarmiðum um að lög kunni að hafa verið brotin við söluferlið er vísað á bug.

Þá sendi Bankasýslan bréf til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í vikunni þar sem stofnunin segist „fagna“ því að eftirlitið hafi tekið til athugunar tiltekna þætti í tengslum við lokað útboðið á Íslandsbanka í síðasta mánuði. Stofnunin segir að mikilvægi þess að skapa traust og tiltrú á sölumeðferð á eignarhlutum í Íslandsbanka verði „seint ofmetið.“

Beinist rannsóknin að starfsháttum söluráðgjafa fjármálafyrirtækja en ekki störfum Bankasýslunnar enda hefur Fjármálaeftirlitið ekki eftirlit með stofnuninni. Þá er FME eins ekki falið eftirlit með framkvæmd laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir keyptu fyrir 20 milljarða, einkafjárfestar með þriðjung útboðsins

Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað meira en þriðjung þeirra eignarhluta í Íslandsbanka sem ríkissjóður seldi í hlutafjárútboðinu sem kláraðist í síðustu viku. Samtals keyptu 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir útboðið samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngildir liðlega 8,5 prósenta eignarhlut.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×