Innherji

Bankasýslan segist „fagna“ rannsókn FME á útboði Íslandsbanka

Hörður Ægisson skrifar
Lárus Blöndal stjórnarformaður Bankasýslunnar og Jón Gunnar Jónsson forstjóri stofnunarinnar.
Lárus Blöndal stjórnarformaður Bankasýslunnar og Jón Gunnar Jónsson forstjóri stofnunarinnar. fréttablaðið/stefán

Bankasýsla ríkisins „fagnar“ því að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi tekið til athugunar tiltekna þætti í tengslum við lokað útboð á 22,5 prósenta hlut Íslandsbanka í síðasta mánuði. Stofnunin segir að mikilvægi þess að skapa traust og tiltrú á sölumeðferð á eignarhlutum í Íslandsbanka verði „seint ofmetið.“

Þetta kemur fram í bréfi Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, sem var sent til Fjármálaeftirlitsins í dag en greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að eftirlitið sé með útboðið í Íslandsbanka, sem kláraðist í síðasta mánuði, til rannsóknar.

Beinist rannsóknin að starfsháttum söluráðgjafa fjármálafyrirtækja en ekki störfum Bankasýslunnar enda hefur Fjármálaeftirlitið ekki eftirlit með stofnuninni. Þá er FME eins ekki falið eftirlit með framkvæmd laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Í bréfi Bankasýslunnar er meðal annars nefnt að fram hefur komið í umræðum um söluna að vafamál sé hvort kaupendur í útboðinu hafi allir uppfyllt lagaskilyrði um að teljast hæfur fjárfestir sem og hvort uppi hafi verið hagsmunaárekstrar hjá söluráðgjöfum, meðal annars vegna kaupa starfsmanna eða tengdra aðila á hlutum í Íslandsbanka. Þá hefur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, komið fram með athugasemdir um mögulega markaðsmisnotkun með vísan til þess að hlutabréfaverð Íslandsbanka hafi lækkað skarpt í aðdraganda útboðsins sem fór fram 22. mars síðastliðinn og kláraðist fyrir opnun markaða daginn eftir.

Bankasýslan bendir á að stofnunin hafi engar heimildir til eftirgrennslan þessara atriða en Fjármálaeftirlitið hafi það hins vegar. Forstjóri Bankasýslunnar segir í bréfi sínu að stofnunin muni bjóða fram alla sína aðstoð og upplýsingar sem geti varpað nánara ljósi á útboði, óski Fjármálaeftirlitið eftir því.

Þá vekur Bankasýslan sérstaklega athygli á því að vegna athugasemdir Björns Leví um mögulega markaðsmisnotkun þá hafi á hluthafafundi Íslandsbanka þann 17. mars verið ákveðin arðgreiðsla upp á samtals 11,9 milljarða króna, eða sem nam 5,95 krónum á hlut. Arðleysisdagur – sá dagur sem viðskipti hefjast með bréf bankans án réttar til arðgreiðslu – var þann 18. mars sem skýrir að langmestu þá verðlækkun sem varð fyrir útboðið fjórum dögum síðar.

Mikill styr hefur staðið um söluferlið á Íslandsbanka og hafa sumir stjórnarþingmenn VG sagt gagnrýnivert hvernig Bankasýslan hafi haldið á málum við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins og að auðveldara verði að endurheimta traust almennings ef stjórn og forstjóri stofnunarinnar myndu víkja.

Á meðal þeirra sem keyptu voru samtals 140 innlendir einkafjárfestar fyrir samanlagt 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi. Þeir einkafjárfestar sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins en í þeim hópi voru starfsmenn fjármálafyrirtækja sem voru söluráðgjafar við útboðið, meðal annars sem störfuðu í verðbréfamiðlun Íslandsbanka sem var einn umsjónaraðila útboðsins.

Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að gera úttekt á söluferli Íslandsbanka og er niðurstöðu hennar að vænta í júní. Bankasýsla ríkisins, sem sá um framkvæmd sölunnar fyrir hönd ríkissjóðs, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem öllum sjónarmiðum um að lög kunni að hafa verið brotin við söluferlið er vísað á bug.


Tengdar fréttir

Lífeyrissjóðir keyptu fyrir 20 milljarða, einkafjárfestar með þriðjung útboðsins

Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað meira en þriðjung þeirra eignarhluta í Íslandsbanka sem ríkissjóður seldi í hlutafjárútboðinu sem kláraðist í síðustu viku. Samtals keyptu 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir útboðið samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngildir liðlega 8,5 prósenta eignarhlut.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×