Körfubolti

ÍR tryggði sér oddaleik um sæti í Subway-deild kvenna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
ÍR-ingar tryggðu sér oddaleik í kvöld.
ÍR-ingar tryggðu sér oddaleik í kvöld. Karfan.is

ÍR-ingar tryggðu sér oddaleik um sæti í Subway-deild kvenna í körfubolta er liðið vann öruggan 26 stiga sigur gegn Ármanni í kvöld, 87-61.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og að honum loknum leiddu ÍR-ingar með tveimur stigum, staðan 20-18. Heimakonur í ÍR voru svo mun sterkari á lokakafla fyrri hálfleiksins og fóru með 12 stiga forskot til búningherbergja í stöðunni 43-31.

ÍR-ingar héldu áfram þar sem frá var horfið þegar flautað var til síðari hálfleiks og juku forskot sitt í 19 stig í þriðja leikhluta. Lokaleikhlutinn var því hálfgert formsatriði fyrir liðið, en ÍR-ingar unnu að lokum öruggan 26 stiga sigur, 87-61, og tryggðu sér um leið oddaleik um sæti í Subway-deild kvenna.

Edda Karlsdóttir og Gladiana Aidaly Jimenez voru stigahæstar í liði ÍR með 21 stig hvor, en í liði Ármanns var það Schekinah Sandja Bimpa sem var atkvæðamest með 33 stig.

Staðan er nú 2-2 í einvíginu og því þarf oddaleik til að skera úr um hvort liðið fer í Subway-deildina, en hann fer fram á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×