Handbolti

„Ég spilaði fínan leik“

Atli Arason skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson eftir leik
Óðinn Þór Ríkharðsson eftir leik Stöð 2/Vísir

Óðinn Þór Ríkharðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, var ánægður með sigurinn á sterku liði Austurríkis í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2023. Lokatölur 30-34.

„Sáttur við sigurinn. Þetta er náttúrulega hörku lið sem þeir erum með en við gefum eftir í seinni hálfleik, eftir að við spiluðum hörku fyrri hálfleik,“ sagði Óðinn Þór í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik.

Vörn Íslands hélt vel á löngum köflum þar sem Austurríkismenn þurftu að fara langt inn í sóknirnar sínar og hönd dómarana fór mikið á loft en samt náði Austurríki of oft að skora úr þeirri aðstöðu. Aðspurður að því hvort það vantaði ekki smá herslumun í varnarleiknum kvaðst Óðinn þurfa að fá að skoða það betur.

„Já kannski. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því núna, við förum bara betur yfir þetta og sjáum hvað setur,“ svaraði Óðinn.

Óðinn fékk tækifæri í liði Íslands í kvöld í fjarveru Sigvalda og taldi sig nýta það tækifæri vel. Óðinn skoraði sjö mörk í leiknum.

„Ég er þokkalega sáttur, þetta var fínt og ég spilaði fínan leik.“

Ísland fer með fjögurra marka forystu inn í síðari viðureign liðanna sem verður leikinn fyrir fullum sal á Ásvöllum á laugardaginn næsta. Þar ætlar íslenska liðið að tryggja farseðill sinn á HM 2023.

„Við ætlum að vinna þann leik og tryggja sætið,“ sagði Óðinn Þór Ríkharðsson að lokum. Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Óðinn Þór Ríkharðsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×