Körfubolti

Óaðfinnanlegur Kyri­e skaut Nets í úr­slita­keppnina | Min­nesota fór á flug í fjórða leik­hluta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kyrie Irving var frábær í nótt.
Kyrie Irving var frábær í nótt. Sarah Stier/Getty Images

Tveir leikir í umspili fyrir úrslitakeppni NBA-deildarinnar fóru fram í nótt. Kyrie Irving var frábær í 115-108 sigri Brooklyn Nets á Cleveland Cavaliers. Þá komst Minnesota Timberwolves loks í úrslitakeppnina eftir 109-104 sigur á Los Angeles Clippers.

Nets byrjuðu mun betur gegn Cavaliers og kláraðu í raun leikinn strax í fyrsta leikhluta, staðan þá 40-20. Gestirnir gerðu áhlaup í öðrum leikhluta en munurinn var samt sem áður 14 stig í hálfleik. Aðallega þökk sé magnaðri frammistöðu Kyrie.

Hann skoraði tvær þriggja stiga körfur undir lok fyrri hálfleiks, þá síðari er hann stökk aftur á bak í engu jafnvægi og klukkan að renna út. Kyrie gerði sér lítið fyrir og skoraði úr öllum skotunum sínum í fyrri hálfleik.

Cavaliers gerðu heiðarlega tilraun að endurkomu í fjórða leikhluta en það var of lítið of seint, lokatölur 115-108 og Brooklyn Nets mætir Boston Celtics í úrslitakeppni Austurdeildar NBA. Cleveland mætir Charlotte Hornets eða Atlanta Hawks í leik um áttunda og síðasta sætið í úrslitakeppni Austurdeildarinnar.

Kyrie skoraði á endanum 34 stig og gaf 12 stoðsendingar. Þar á eftir kom Kevin Durant með 25 stig og 11 stoðsendingar á meðan Bruce Brown Jr. skoraði 18 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Í liði Cavaliers var Darius Garland stigahæstur með 34 stig og Evan Mobley kom þar á eftir með 19 stig og 7 fráköst.

Í Minnesota var Los Angeles Clippers í heimsókn. Heimamenn létu sig dreyma um að komast í úrslitakeppnina í aðeins annað skiptið á undanförnum 17 árum. Það tókst með mögnuðum 109-104 sigri þar sem liðið vann fjórða leikhluta með 11 stiga mun og tryggði sér þar með sæti í úrslitakeppninni.

Anthony Edwards skoraði 30 stig í liði Minnesota og D‘Angelo Russell skoraði 29 stig ásamt því að gefa sex stoðsendingar. Hjá Clippers skoraði Paul George 34 stig.

Timberwolves mætir Memphis Grizzlies í úrslitakeppninni á meðan Clippers mæta San Antonio Spurs eða New Orleans Pelicans í leik um áttunda og síðasta sætið í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×