Innherji

Stoðir bæta við sig í Bláa lóninu fyrir nærri 700 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Tekjur Bláa lónsins jukust um 46 prósent í fyrra og voru samtals 48 milljónir evra. Rúmlega 700 milljóna tap var á rekstrinum.
Tekjur Bláa lónsins jukust um 46 prósent í fyrra og voru samtals 48 milljónir evra. Rúmlega 700 milljóna tap var á rekstrinum. vísir/gva

Fjárfestingafélagið Stoðir, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Bláa lónsins í lok ágústmánaðar í fyrra með kaupum á 6,2 prósenta hlut Helga Magnússonar, þáverandi stjórnarformanni félagsins, bætti nokkuð við eignarhlut sinn í ferðaþjónustufyrirtækinu síðar á árinu og fer núna með samtals 7,3 prósenta eignarhlut. Nokkrir minni hluthafar í Bláa lóninu seldu bréf sín í félaginu á síðustu mánuðum ársins 2021.

Kaupverðið á þeim bréfum sem Stoðir keyptu til viðbótar í Bláa lóninu undir lok ársins voru á sambærilegu gengi og þegar fjárfestingafélagið og hópur lífeyrissjóða – í aðskildum viðskiptum með skömmu millibili – keyptu áður samanlagt yfir 12 prósenta hlut í fyrirtækinu sem verðmat það á liðlega 60 milljarða króna, samkvæmt heimildum Innherja. Miðað við það má ætla að Stoðir hafi greitt nærri 700 milljónir króna fyrir að hafa bætt við sig rúmlega eins prósenta hlut í félaginu.

Stoðir, sem eru eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins og hagnaðist um 20 milljarða í fyrra, er stærsti hluthafi Símans auk þess að vera í hópi umsvifamestu eigenda Arion banka, Kviku, Play og Landeldis. Eigið fé Stoða í árslok var 51 milljarður.

Á meðal annarra fjárfesta sem komu nýir inn í eigendahóp Bláa lónsins á liðnu ári, að því er lesa má út úr nýbirtum ársreikningi, er félagið 46 ehf., sem er í eigu Bergþórs Jónssonar, og fer með um 0,2 prósenta hlut í árslok 2021. Bergþór er annar eigenda félagsins Mótás sem er einn af stærstu hluthöfum Stoða og hefur komið að fjárfestingum í Arion banka og Controlant á síðustu misserum.

Í hópi þeirra minni hluthafa sem seldu öll bréf sín í Bláa lóninu í fyrra voru meðal annars Vilmundur Jósefsson, fyrrverandi formaður Samtaka atvinnulífsins, og Sveinn Hannesson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Gámaþjónustunnar, en þeir áttu báðir hvor um sig 0,33 prósenta hlut. Miðað við verðmiðann á Bláa lóninu má ætla að þeir hafi fengið um 200 milljónir fyrir hlutinn. Þá seldi Bent Frisbæk allan sinn 0,6 prósenta hlut í fyrirtækinu auk þess sem aðrir enn minni hluthafar losuðu um bréf sín, sumir hverjir fyrir milligöngu Fossa markaða, undir lok síðasta árs, samkvæmt heimildum Innherja.

Samlagshlutafélagið Blávarmi, sem er í eigu fjórtán lífeyrissjóða, keypti tæplega 6,2 prósenta hlut í Bláa lóninu í september í fyrra fyrir 25 milljónir evra, jafnvirði um 3,8 milljarða króna á þáverandi gengi, eins og Innherji greindi frá á sínum tíma.

Seljandi bréfanna var eignarhaldsfélagið Saffron Holding sem er í eigu Sigurðar Arngrímssonar en kaupferlið hafði staðið yfir síðan í lok júní. Fyrir kaupin áttu lífeyrissjóðirnir um 30 prósenta hlut í Bláa lóninu en fara núna með liðlega 36,2 prósenta hlut í þessu eina verðmætasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Í þessum viðskiptum var Bláa lónið verðmetið á samtals um 61 milljarð króna.

Skömmu áður hafði Helgi Magnússon, fjárfestir og aðaleigandi útgáfufélags Fréttablaðsins, selt allan sinn eignarhlut – sem jafnframt nam tæplega 6,2 prósentum – til fjárfestingafélagsins Stoða. Helgi seldi hlut sinn á lítillega lægra verði en í tilfelli Sigurðar en þeir höfðu báðir verið í hluthafahóp Bláa lónsins í vel á annan áratug.

Lífeyrissjóðirnir eignuðust fyrst 30 prósenta hlut í Bláa lóninu vorið 2019 þegar þeir keyptu eignarhlutinn af HS Orku en í þeim viðskiptum var ferðaþjónustufyrirtækið metið á 50 milljarða króna. Í sérstöku verðmati sem Blávarmi lét gera í fyrra, sem verðbréfafyrirtækið Arctica Finance hafði umsjón með, var Bláa lónið hins vegar verðlagt á samtals um 57 milljarða króna.

Á síðasta ári nam tap Bláa lónsins 4,8 milljónum evra, jafnvirði um 710 milljóna króna, borið saman við tap upp á 21 milljón evra á árinu 2020. Tekjur félagsins jukust um 46 prósent á milli ára og voru samtals 48 milljónir evra. Þá var hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 2,14 milljónir evra en á árinu 2020 var rekstrarafkoman neikvæð um 12,6 milljónir evra. Eigið fé félagsins stóð í tæplega 55 milljónum evra í árslok 2021 og eiginfjárhlutfallið í 37 prósent.

Bláa lónið var lokað í sam­fellt átta mánuði, frá októ­ber 2020 til júní 2021, en fyrr á ár­inu 2020 hafði lón­inu verið lokað í um þrjá mánuði.

Stærsti hluthafi Bláa lónsins, með 39,6 prósenta hlut, verður eftir sem áður samlagshlutafélagið Hvatning en stærsti eigandi þess með 60 prósenta hlut er eignarhaldsfélagið Kólfur, sem Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins fer með forræði yfir, á meðan framtakssjóður í rekstri Landsbréfa heldur hins vegar á tæplega 40 prósenta hlut.

Þriðji stærsti hluthafi Bláa lónsins – á eftir Hvatningu og Blávarma – er eignarhaldsfélagið Keila með liðlega ellefu prósenta hlut. Keila er í meirihlutaeigu Hvatningar en aðrir hluthafar félagsins eru meðal annars Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×