Viðskipti innlent

Sumar­bú­staður Gylfa Þórs seldur á upp­boði að beiðni Skattsins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sumarbústaður í eigu knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefur verið settur á uppboð að beiðni Skattsins. 
Sumarbústaður í eigu knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefur verið settur á uppboð að beiðni Skattsins.  Vísir/Daniel Thor

Sumarbústaður í eigu knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar hefur verið settur á uppboð hjá Sýslumanninum á Suðurlandi að beiðni Skattsins. 

Líklegt er að eignin hafi verið sett á nauðungarsölu af Skattinum en fram kemur á uppboðsvef sýslumanna að eignin sé í „byrjun uppboðs“. Fram kemur á vef Skattsins að það sé annað af þremur skrefum í nauðungarsölu. Nauðungarsala er aðgerð til að koma eign í verð á opinberu uppboði til að greiða þær skuldir sem hvíla á eigninni.

Byrjun uppboðs á sumarbústað Gylfa mun fara fram á skrifstofu sýslumanns 31.mars næstkomandi og fer það fram 4-6 vikum eftir fyrstu fyrirtöku, þar sem beiðnin er tekið fyrir. Eignin er þá boðin upp í fyrsta skipti og ákveðið hvenær framhaldssala skuli fara fram, sem er lokastig nauðungarsölu. Framhaldssala verður að fara fram innan fjögurra vikna frá því að byrjun uppboðs fer fram, eða fyrir lok aprílmánaðar. 

Sumarbústaðurinn sem um ræðir er í Grímsnes- og Grafningshreppi og fer uppboðið því fram hjá Sýslumanninum á Suðurlandi. 

Í farbanni til 17. apríl

Gylfi Þór hefur verið í farbanni frá Bretlandi frá 16. júlí síðastliðnum þegar hann var handtekinn á heimili sínu í Manchester grunaður um að hafa brotið kynferðislega á ungmenni. Eftir handtökuna var honum sleppt lausum gegn tryggingu en settur í farbann sem rennur út 17. apríl næstkomandi. 

Gylfi hefur ekkert tjáð sig um málið frá því það kom upp í sumar. Heimildir götumiðla í Bretlandi herma þó að Gylfi hafi harðneitað þeim ásökunum sem á hann hafa verið bornar. 

Gylfi hefur undanfarin misseri spilað með enska knattspyrnuliðinu Everton í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Gylfi var ekki á lista liðsins yfir það leikmenn sem liðið hefur mátt tefla fram í leikjum frá 1. september og má því ekki spila fyrir liðið. Everton hefur gefið það út að hann muni ekki spila með liðinu fyrr en rannsókn lögreglu er lokið.

Samningur Everton og Gylfa rennur út í sumar en hann var keyptur til félagsins frá Swansea fyrir 45 milljónir punda árið 2017. Þá hefur Gylfi ekki leikið með landsliði Íslands síðan í nóvember 2020.


Tengdar fréttir

Á­fram laus gegn tryggingu

Gylfi Þór Sigurðs­son, leik­maður enska knatt­spyrnu­liðsins E­ver­ton, verður á­fram laus gegn tryggingu fram til mið­viku­dagsins í næstu viku, 19. janúar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×