Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Grótta 27-30 | Sterkur sigur gestanna og heimamenn ekki unnið deildarleik á árinu

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Grótta vann góðan sigur í kvöld.
Grótta vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Vilhelm

Átjánda umferð Olís-deildar karla í handbolta hófst í kvöld eftir u.þ.b. tveggja vikna hlé á deildarkeppninni. Í Garðabæ mætti Grótta í heimsókn og lék gegn heimamönnum í Stjörnunni. Leiknum lauk með þriggja marka sigri Gróttu, en sigurinn hefði hæglega getað verið stærri.

Liðin mættu inn í leikinn eftir ólíkt gengi upp á síðkastið. Grótta hafði gert jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum, gegn Aftureldingu og Selfoss. Stjarnan hins vegar hafði tapað öllum leikjum sínum það sem af er á árinu 2022 og kom síðasta tap þeirra gegn Val, sem var sannfærandi átta marka tap. Sú dapra tölfræði Stjörnunnar breyttist ekki í kvöld.

Grótta komst í tveggja marka forystu eftir um fjögurra mínútna leik, staðan 1-3. Á níundu mínútu leiksins stöðvaðist svo leikurinn vegna tæknilegra vandræða á tímavarðaborðinu og tafðist leikurinn í um það bil tíu mínútur. 

Grótta hélt ávallt yfirhöndinni í fyrri hálfleiknum en náði þó mest bara tveggja marka forystu. Stjarnan jafnaði leikinn oft í fyrri hálfleik en náði aldrei að komast yfir. Fyrri hálfleikurinn var einstaklega hægur, lítið um markvörslu og lélegur varnarleikur á báða bóga sem skilaði sér í flóði marka. Staðan 18-18 í hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst með fjórum tæknifeilum, tveir á hvert lið. Í kjölfarið á þessum kafla fékk Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar, tveggja mínútna brottvísun og hrun Stjörnunnar hófst. 

Grótta jók hraðann og ákefðina í sínum leik og náði Stjarnan engan veginn að halda í við leik Seltirninga. Staðan 18-23 eftir um sjö mínútna leik í síðari hálfleik, Gróttu í vil. Stjarnan náði mest að minnka muninn í tvö mörk, staðan þá 22-24. Grótta bætti þá í og stýrði hraðanum í leiknum sem á endanum sigldi sigrinum í höfn. Lokatölur 27-30 Gróttu í vil.

Af hverju vann Grótta?

Frábær upphafskafli í síðari hálfleik skóp sigurinn í kvöld fyrir Seltirninga. Þeir náðu að auka ákefðina í leik sínum, sem hafði verið einstaklega lítill meirihluta fyrri hálfleiks í leik beggja liða. Náðu þeir þar með tögl og haldir á restinni af leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Þór Helgason, fyrirliði Gróttu, átti flottan leik. Átta mörk úr tíu skotum á þeim bænum.

Einar Baldvin Baldvinsson, markvörður Gróttu, var frábær í síðari hálfleik eftir að hafa aðeins varið tvo bolta í fyrri hálfleik og var einn af lykilþáttum þess að Grótta fór með sigur af hólmi í kvöld.

Frammistaða Hrannars Braga Eyjólfssonar hjá Stjörnunni í kvöld var eitt af fáu jákvæðu í leik liðsins í kvöld. Sex mörk og hundrað prósent skotnýting.

Hvað gekk illa?

Leikur Stjörnunnar heilt yfir í síðari hálfleik. Hvert sem litið var þá skorti liðinu framlag í sóknarleik, varnarleik og markvörslu.

Garðbæingar hljóta að ætlast til meira af Gunnari Steini Jónssyni. Eitt mark í kvöld úr tveimur skotum og eitt skapað færi er tölfræði sem einum af lykilmanni Stjörnunnar er ekki sæmandi og þá sérstaklega miðað við hverjir eru á meiðslalista liðsins. Óskum eftir meiru frumkvæði frá Gunnari Steini.

Hvað gerist næst?

Gróttumenn fara upp í Kór í næstu umferð og mæta HK sunnudaginn 27. mars klukkan 16:00.

Stjarnan fer hins vegar í Kaplakrika sama dag og mætir FH klukkan 19:30 í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Arnar Daði: Ég er ekki blindur ennþá sko

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, var ánægður með sigur dagsinsVísir/Hulda Margrét

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá fannst mér þetta ekkert frábær frammistaða. En við vorum frábærir í tuttugu mínútur í seinni hálfleik og það gjörsamlega skóp þennan sigur. Fáránlega gott að vinna Stjörnuna þrátt fyrir að eiga bara góðar tuttugu mínútur. Það er margt sem spilaði inn í, það var frábær varnarleikur, Einar Baldvin frábær í markinu í seinni hálfleik og svo spiluðum við bara agaðan sóknarleik fyrir utan þetta bíó hérna í lokinn.“

Aðspurður út í kaflann í byrjun seinni hálfleiks hafði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, þetta að segja.

„Þakka strákunum fyrir það, ég var búinn að bíða eftir þessu. Ég beið eftir þessum kafla í fyrri hálfleik en hann kom ekki. Mér fannst við bara á sama tempói og þeir og mér fannst við eiga bullandi mikið inni, en að sama skapi átti Stjarnan líka heilmikið inni en ég vissi ekkert hvernig þeir ætluðu að koma inn í þennan leik. Sem betur fer komum við af krafti inn í seinni hálfleikinn. Mér fannst þetta bara ekkert spes leikur af beggja hálfu, en sem betur fer kveiktum við á perunni á undan þeim.“ og hann bætti við „þetta var ekki fallegt hérna í lokinn ég verð bara að viðurkenna það, ég er ekki blindur enn þá sko“.

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, telur ágætis líkur á að koma sínu liði í úrslitakeppnina.

„Við erum enn þá í tíunda sæti og það eru bara tvö sæti í það þannig að það er bara alltaf eitt lið á milli.“ Bætti hann svo við þegar hann var spurður út í stigasöfnuninna fram undan „já, klárlega það eru átta stig í boði og þetta var risa stór sigur fyrir okkur“.

„Við vorum í bullandi veikindum fyrir þennan leik. Birgir Steinn byrjar út af, hann er ekki búinn að æfa síðan á föstudaginn í síðustu viku. Lúlli (Lúðvík) er búinn að vera veikur, Valdimar línumaður er búinn að vera frá í tvær og hálfa viku og meira til. Við þurftum að vera vel undirbúnir, en við náðum ekkert sérstaklega vel að æfa fyrir þetta en vorum undirbúnir videólega séð. Þetta er stórt skref fyrir strákanna.“

„Við þurfum bara að halda ró. Það verður erfitt að mæta HK, þeir eru fallnir og hafa engu að tapa. Það er einhver þvílík trú í mannskapnum þar og þeir eru bara farnir að hugsa um næstu ár, þeir mæta örugglega dýrvitlausir og ætla að slátra okkur. Það verður bara spennandi að sjá hvort strákarnir verða mættir til að láta slátra sér eða ekki. Það verður bara erfitt verkefni, það verður erfitt að motivera sig þegar við erum hólpnir. Við björguðum okkur þegar voru þrjár umferðir eftir í fyrra og mætum til leiks á móti Fram og létum rassskella okkur með 17 mörkum. Ég mun minna strákana á það fyrir sunnudaginn.“

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.