Innherji

Marel borgaði yfir fimm milljarða fyrir hátæknifyrirtækið Völku

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Hjálmarsson stofnaði Völku árið 2003 eftir að hafa starfað áður í níu ár hjá Marel. Hann var fjórði stærsti hluthafi félagsins með yfir 13 prósenta hlut þegar það var selt til Marels í fyrra.
Helgi Hjálmarsson stofnaði Völku árið 2003 eftir að hafa starfað áður í níu ár hjá Marel. Hann var fjórði stærsti hluthafi félagsins með yfir 13 prósenta hlut þegar það var selt til Marels í fyrra. Valka

Áætlað kaupverð Marels á íslenska hátæknifyrirtækinu Völku, sem framleiðir fiskvinnslulausnir fyrir alþjóðamarkað, er samtals vel á sjötta milljarð króna. Tilkynnt var um kaup Marels á fyrirtækinu um mitt síðasta ár en þau kláruðust undir lok nóvembermánaðar eftir að Samkeppniseftirlitið hafði gefið samþykki sitt fyrir samruna félaganna.

Stærsti hluthafi Völku, með fimmtungshlut, var Samherji en þar á eftir kom félag í eigu fjárfestanna Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar með rúmlega 15 prósenta hlut.

Í nýjasta ársreikningi Marels er upplýst um að kaupverðið hafi samanstaðið annars vegar af greiðslu reiðufjár upp 3,2 milljarða króna og hins vegar 2,6 milljónum hlutum að nafnvirði í Marel en markaðsvirði þeirra þegar kaupin gengu í gegn þann 19. nóvember síðastliðinn – hlutabréfaverð Marels var þá 842 krónur á hlut – var um 2,2 milljarðar. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa Marels lækkað um 13 prósent og stendur nú í 732 krónum á hlut.

Samanlagt greiddi Marel því um 5,4 milljarða króna fyrir kaupin á Völku en tekið er fram að endanlegt kaupverð geti tekið breytingum í allt að 18 mánuði frá þeim degi þegar þau kláruðust. Vegna þessa er 200 milljónum króna í reiðufé haldið til hliðar tímabundið og eins 800 þúsund hlutum að nafnvirði í Marel sem eru í dag með markaðsvirði upp á tæplega 600 milljónir króna.

Þeir seljendur sem fengu greitt að helmingshluta með bréfum í Marel, sem voru allir aðrir en minni hluthafar Völku, skuldbundu sig til að eiga þau í að lágmarki 18 mánuði eftir kaupin.

Ekki var greint frá kaupverðinu þegar tilkynnt var um sameiningu félaganna í fyrra.

Valka og Marel hafa sagt að þau deili sömu sýn og mark­miði að um­bylta fisk­vinnslu með því að hanna og þróa sjálf­bærar há­tækni fisk­vinnslu­lausnir í nánu sam­starfi við við­skipta­vini. Í tilkynningu vegna kaupanna á sínum tíma var bent á að þau myndu styrkja vöru­fram­boð Marel á heildar­lausnum og auka stærðar­hag­kvæmni til þess að þjónusta við­skipta­vini betur. Miðlun þekkingar og reynslu hjá sam­eigin­legu teymi mun hraða ný­sköpun til að þjónusta betur þær öru breytingar sem eiga sér stað í sjávar­út­vegi og markað­s­um­hverfi. Fyrir­tækin sjá mikla mögu­leika fyrir vörur og tækni Völku í öðrum prótíniðnuðum.

Helgi Hjálmars­son, sem tók við stöðu forstöðumanns vinnslulausna eftir kaupin, stofnaði Völku árið 2003 og hefur síðan þá kynnt til sögunnar fjöl­margar ný­stár­legar fisk­vinnslu­lausnir sem hefur verið vel tekið af markaðs­aðilum. Vöru­fram­boð Völku inni­heldur meðal annars vatns­skurðar­vélar, snyrti- og flokkunar­línur. Valka var með um 17 milljónir evra í tekjur á árinu 2020, jafnvirði rúmlega 2,6 milljarða króna, en hjá fé­laginu starfa sam­tals 105 starfs­menn á Ís­landi og í Noregi.

Þegar Marel birti ársuppgjör sitt í byrjun síðasta mánaðar var haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra fyrirtækisins, að „hagfelldar markaðsaðstæður, sterk staða og fjárhagsstyrkur fyrirtækisins geri Marel nú „kleift að ráðast í stærri yfirtökur til að knýja fram áframhaldandi vöxt og viðgang.“

Í viðtali við Innherja á þeim tíma sagði Árni Oddur að áform um stórar yfirtökur væru gerðar í því skyni að ná metnaðarfullum markmiðum um tekjuvöxt sem þarf að vera töluvert meiri á næstu fimm árum en hann hefur að meðaltali verið á síðustu fimm.

Fjárfesting í sölu- og þjónustuneti í miðjum heimsfaraldri hafi skilað sér í því að tæknifyrirtækið sé í góðri stöðu miðað við keppinauta og býst við að „dulinn kostnaður“ vegna tafa og verðhækkana í aðfangakeðju, sem nemur um tveimur prósentum af tekjum Marel, muni ganga til baka á seinni hluta ársins.

Marel hefur sagt að fyrirtækið standi við markmið sín um 12 prósenta árlegan meðalvöxt á árunum 2017-2026 en vöxturinn frá 2017-2021 nam 7 prósent að meðaltali. Vöxturinn frá 2022-2026, bæði innri og ytri vöxtur, þarf því að nema um 16 prósentum á ári til þess að félagið nái markmiðum sínum.

Marel, sem er skráð á markað bæði á Íslandi og í Hollandi, er langstærsta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á 565 milljarða króna. Hlutabréfaverð félagsins hefur hins vegar lækkað nokkuð skarpt á síðustu mánuðum, eða um fjórðung frá því í lok ágúst í fyrra þegar það var hvað hæst. Frá áramótum hefur gengið bréfa Marels fallið um rúmlega 16 prósent á meðan Úrvalsvísitalan hefur á sama tíma lækkað um tæplega tíu prósent.


Tengdar fréttir

Hafa samið um kaup Marels á Völku

Marel hefur skrifað undir samning um kaup á Völku ehf., íslensku hátæknifyrirtæki sem framleiðir fiskvinnslulausnir fyrir alþjóðamarkað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×