Viðskipti innlent

Telja mikilvægt að huga að netöryggi við núverandi aðstæður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar. Vísir/Vilhelm

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans telur mikilvægt að hugað sé að netöryggi landsins og rekstraröryggi fjarskipta- og fjármálainnviða her á landi. Nefndin metur stöðu fjármálastöðugleika góða.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem birtist á vef Seðlabankans í morgun eftir fyrsta fund nefndarinnar á þessu ári. Seðlabankinn gaf einnig út ritið Fjármálastöðugleiki í morgun þar sem farið er nánar yfir þróun mála.

„Efnahagsbatinn í ár verður líklega hægari en áður var talið vegna áhrifa kórónuveirunnar og innrásar Rússa í Úkraínu, sérstaklega ef stríðið dregst á langinn,“ segir í yfirlýsingunni. Þar er þó tekið fram að staða fjármálastöðugleika sé góð og staða heimilanna sé almennt góð.

„Staða fjármálastöðugleika er góð. Viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna er mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lögbundnum mörkum og þeir hafa því nægt svigrúm til að styðja við fyrirtæki og heimili,“ segir í yfirlýsingunni.

Nefndin segist fylgjast grannt með stöðunni á húsnæðismarkaði.Vísir/Vilhelm

„Staða heimilanna er almennt góð og hægt hefur á skuldavexti þeirra. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist ár frá ári og eiginfjárstaða heimila hefur styrkst. Dregið hefur úr atvinnuleysi og atvinnuþátttaka aukist. Traust staða heimila mun auðvelda þeim að standa undir hærri greiðslubyrði íbúðalána ef vextir hækka frekar og heimilin hafa aðgang að ólíkum lánaformum til að takast á við verðbólgu,“ segir ennfremur.

Fylgjast grannt með fasteignamarkaðinum

Þar kemur einnig fram að grannt sé fylgst með þróun á fasteignamarkaði og skuldsetningu heimila. Að auki vísar nefndin aftur til stríðsins í Úkraínu og segir hún mikilvægt að huga að netöryggi landsins.

„Fjármálastöðugleikanefnd áréttar mikilvægi þess að hugað sé að netöryggi landsins og rekstraröryggi fjarskipta- og fjármálainnviða. Núverandi aðstæður undirstrika mikilvægi þess að auka viðnámsþrótt í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar. Nefndin ítrekar nauðsyn þess að rekstraraðilar gæti að öryggi greiðslukerfa og rekstrarsamfellu.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×