Skoðun

Á­minning um auð­lindir

Erna Mist skrifar

Manstu hver þú varst áður en heimurinn sagði þér hver þú værir? Áður en bíómyndirnar lögðu drög að draumum þínum og samfélagsmiðlar komu á tilfinningalegu kvótakerfi í hausnum á þér til að úthluta athygli þinni til erlendra stórfyrirtækja? Manstu hver þú varst áður en undirmeðvitund þín varð að bandarískri nýlendu? 

Manstu hvernig heimurinn leit út áður en þú skiptir glugganum út fyrir skjá? Manstu hvað þér þótti verðugt áður en læktakkinn varð viðurkenningarmælikvarði? Manstu hver gildin þín voru áður en pólitískur rétttrúnaður varð að siðferðilegu öryggisneti? 

Manstu hvað þú gerðir þegar þú hafðir ekkert að gera? Áður en tækið í vasanum breytti frítíma þínum í skjátíma og þú neyddist til að upplifa eigin tilveru? Manstu hvað þú fílaðir áður en algóritminn útbjó þér uppskrift? Manstu hvert þú beindir athyglinni áður en hún var uppskorin, framseld og gerð að einni verðmætustu auðlind nútímans? 

Manstu eftir kynorkunni sem dreif þig út á lífið áður en myndböndin á netinu deyfðu hana niður? Manstu eftir umheiminum áður en fréttirnar sögðu þér að hræðast hann? Manstu eftir líkamanum áður en kyrrsetan breytti honum í búr? 

Manstu eftir orðunum áður en stafrænar táknmyndir á borð við broskalla og hjörtu komu í stað setninga, hugmynda og hugrenninga? Manstu hvernig samræðurnar víkkuðu í okkur mannskilninginn áður en myndir og hlekkir komu í stað raunverulegra tjáskipta? 

Manstu hver þú ert og hver þú varst og hver þig langar að vera? Því um leið og maður hættir að svara þessari spurningu er einhver annar tilbúinn að svara fyrir mann. Það er alltaf einhver auglýsing, eitthvert trend, frétt, þáttur eða hlaðvarp tilbúið að segja manni hvað maður á að vera að hugsa um, og þess vegna er ein helsta áskorun nútímamannsins að beita athyglinni inn á við. 

Sjálfsstjórn birtist í mörgum myndum. Að hafa stjórn á eigin skapi ber vott um þroska. Að hafa stjórn á eigin líkama ber vott um heilsu. Að hafa stjórn á eigin neyslu ber vott um andlegt jafnvægi. Að hafa stjórn á eigin tíma ber vott um farsæld. En sá sem hefur stjórn á eigin athygli - hann er raunverulega frjáls.

Höfundur er listmálari. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×