Innherji

Ragnheiður hættir sem forstjóri Opinna Kerfa

Ritstjórn Innherja skrifar
Ragnheiður hefur verið forstjóri Opinna Kerfa frá því snemma árs 2019 en þar áður var hún fjármálastjóri félagsins.
Ragnheiður hefur verið forstjóri Opinna Kerfa frá því snemma árs 2019 en þar áður var hún fjármálastjóri félagsins.

Ragnheiður Harðar Harðardóttir, sem hefur stýrt Opnum Kerfum undanfarin þrjú ár, hefur óskað eftir því að láta af störfum sem forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins. Áður en hún tók við sem forstjóri félagsins árið 2019 hafði hún verið fjármálastjóri Opinna Kerfa.

Ragnheiður mun láta af störfum nú um mánaðarmótin en vera stjórn til ráðgjafar og nýjum forstjóra innan handar næstu mánuði. Reynir Stefánsson, framkvæmdastjóri Búnaðar- og markaðsmála hjá Opnum Kerfum, mun taka tímabundið við sem forstjóri.

Ragnheiður segist stolt af þeirri umbreytingu og mikla rekstrarbata sem hefur náðst undanfarin ár. Ákveðin kaflaskil séu hins vegar hjá fyrirtækinu um þessar mundir, og vísar hún þá til samruna Opinna Kerfa og Premis sem tilkynnt var um í byrjun ársins, og „langaði mig til að nýta þau tímamót til að afhenda keflið og takast á við ný verkefni. Ég vil þakka starfsmönnum Opinna Kerfa innilega fyrir samstarfið á síðustu árum og óska þeim og félaginu alls hins besta.“

Stjórn félagsins segist í tilkynningu þakka Ragnheiði fyrir gott samstarf og óskar henni velfarnaðar í því sem hún tekur sér næst fyrir hendur.

Rekstur Opinna Kerfa hefur tekið stakkaskiptum frá árinu 2019, þegar Ragnheiður tók við sem forstjóri og síðar sama ár eignaðist sérhæfði lánasjóðurinn MF1 tæplega 80 prósenta hlut í félaginu, en þá var fyrirtækið komið í talsverða fjárhagslegra erfiðleika. Í kjölfarið var ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu og margvíslegar breytingar á rekstrinum, meðal annars hagræðingaraðgerðir, skipulagsbreytingar auk þess sem sett var meiri áhersla á sölu- og markaðsstarf.

Á síðustu tveimur árum hefur félagið skilað bestu afkomu sinni í yfir 15 ár og útlit er fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) á árinu 2021 hafi verið um 250 milljónir króna.

Í síðustu viku tilkynnti Samkeppniseftirlitið að það hefði heimilað samruna Opinna Kerfa og Premis en hann kemur í kjölfar þess að framtakssjóðurinn VEX 1 keypti allt hlutafé Opinna Kerfa undir lok síðasta árs. Samanlögð velta upplýsingatæknifyrirtækjanna í fyrra var um fimm milljarðar króna.


Tengdar fréttir

Nýir eigendur að Opnum kerfum

Sjóðurinn MF1, sem er í eigu lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta, hefur eignast ríflega 77 prósenta hlut í Opnum kerfum í kjölfar 430 milljóna króna hlutafjáraukningar upplýsingatæknifyrirtækisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×