Viðskipti innlent

Nýja Vínbúðin tekur rússneskar vörur úr sölu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sverrir Einar Eiríksson er eigandi Nýju vínbúðarinnar.
Sverrir Einar Eiríksson er eigandi Nýju vínbúðarinnar.

Nýja Vínbúðin, vefverslun með áfengi, hefur tekið allar rússneskar vörur úr sölu á vefverslun sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá búðinni.

Áður mátti finna nokkrar tegundir af vodka í versluninni, meðal annars Smirnoff og Imperia. Í tilkynningunni segir að þær vörutegundir hafi verið teknar úr sölu en Smirnoff-vodkinn hafi sérstaklega verið vinsæll.

Athygli vekur að Smirnoff-vodkinn er ekki rússneskur og hefur ekki verið í langan tíma, þótt hann sé að uppruna rússneskur. Smirnoff er í eigu breska fyrirtækisins Diageo og framleitt í Bandaríkjunum.

Ákvörðunin um að fjarlægja vörurnar úr sölu er tekin í þeim tilgangi að mótmæla tilefnislausri innrás rússneskra hersins inn í Úkraínu. Áfram verður boðið upp á rúmlega 20 vörutegundir af vodka frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Lettlandi og Íslandi og á næstu dögum verða fleiri tegundir kynntar til sögunnar.

Sigrún­ Ósk Sig­urðardótt­ir, aðstoðarfor­sjóri ÁTVR, segir málið sömuleiðis til skoðunar hjá ÁTVR. Mögulega fáist niðurstaða í dag. Hún sagði í samtali við Mbl.is í gær að ákvörðunin lægi hjá ráðherra. Til skoðunar væri hvort lagaheimild færi fyrir slíkri ákvörðun.

Fréttin hefur verið uppfærð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×