Innherji

Skuldastaða og afkomuhorfur sveitarfélaga versnað, segir Kristrún

Hörður Ægisson skrifar
Kristrún Frostadóttir segir í áliti sínu við fjármálastefnuna 2022 til 2026 að málaflokkar séu fluttir yfir til sveitarfélaga til að „hreinsa borð ríkissjóðs“ og bæta afkomustöðuna, en á móti sé geta sveitarfélaga til að sækja fram minnkuð.
Kristrún Frostadóttir segir í áliti sínu við fjármálastefnuna 2022 til 2026 að málaflokkar séu fluttir yfir til sveitarfélaga til að „hreinsa borð ríkissjóðs“ og bæta afkomustöðuna, en á móti sé geta sveitarfélaga til að sækja fram minnkuð. Foto: Vilhelm Gunnarsson

Vandinn þegar kemur að vanfjárfestingu á sveitarstjórnarstiginu er „mun verri“ en hjá ríkinu. Á sama tíma og afkomuhorfur og skuldastaða ríkissjóðs hefur batnað verulega frá síðasta ári er stöðunni þveröfugt farið hjá sveitarfélögum.

Þetta segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, í minnihluta áliti sínu vegna breytingartillögu meirihlutans um fjármálastefnu fyrir árin 2022 til 2026.

Afkomuhorfur sveitarfélaganna hafa „versnað sem og skuldastaðan,“ útskýrir Kristrún. Hún segir að fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu hafi fallið á sveitarstjórnarstiginu og allt bendi til þess að núverandi fjármálastefna og undirliggjandi fjármálaáætlun geri ráð fyrir að fjárfestingarhlutfallið fari lækkandi út árið 2026.

Kemur þetta meðal annars til, að sögn Kristrúnar, vegna vanfjármögnunar sveitarstjórnarstigsins eftir yfirfærslu verkefna í gegnum árin frá ríki til sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi með. „Má sem dæmi nefna málaflokk fatlaðs fólks sem var fluttur á árabilinu 2012 til 2013 frá ríki til sveitarfélaga og greiningar hafa bent til að vanti um 9 milljarða króna,“ segir hún.

Í áliti Kristrúnar er rifjað upp að fjárfesting sveitarfélaga hafi sögulega séð verið um 1,9 prósent af landsframleiðslu en samkvæmt fjármálastefnunni verður hún 1,2 prósent undir lok þessa tímabils. Sá munur jafngildi um 20 milljörðum króna minni fjárfestingu í dag og hafi því vanfjármögnunin bitnað á fjárfestingargetu sveitarfélaga.

Hún segir að um sé að ræða eins konar niðurskurð bakdyramegin í rekstri ríkissjóðs. Málaflokkar séu fluttir yfir til sveitarfélaga til að „hreinsa borð ríkissjóðs“ og bæta afkomustöðuna, en á móti sé geta sveitarfélaga til að sækja fram minnkuð.

„Er þetta sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að svigrúm sveitarfélaga til að bæta tekjur sínar er takmarkað þar sem tekjustofnar eru fáir, ólíkt hjá ríkissjóði, auk þess sem sveitarfélögin eiga erfiðara með að nálgast lánsfjármagn og þegar það er mögulegt er það á hærri vöxtum en hjá ríkissjóði,“ segir í áliti Kristrúnar.

Haraldur L. Haraldsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði sem nú sinnir ráðgjöf á stjórnskipulagi, fjármálum og rekstri sveitarfélaga, sagði í viðtali við Innherja í byrjun þessa mánaðar að það gæti stefnt í óefni ef sveitarfélög komi ekki böndum á hækkun launagjalda og fjölgun stöðugilda hjá sér. Kostnaður vegna launa, launatengdra gjalda og breytinga á lífeyrisskuldbindingum nam 53 prósentum af tekjum sveitarfélaga að meðaltali árið 2010 en árið 2020 var hlutfallið komið upp í 60 prósent að meðaltali hjá A-hluta sveitarfélaga.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sagt margt benda til að rekstur þeirra sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Í umsögn samtakanna til fjárlagafrumvarpsins í desember í fyrra kom fram að á röskum 40 árum, frá árinu 1980 til 2020, sýni gögn Hagstofunnar að heildarafkoma sveitarfélaga verið neikvæð í 33 ár og jákvæð í aðeins 8 ár, síðast árið 2007. Rekstrarafkoma sveitarfélaganna hafi versnað yfir langt tímabil sem hafi haft það í för með sér að fjárfestingargeta þeirra hafi minnkað umtalsvert.

Ekki tekist vel að nota fjárfestingar sem sveiflujöfnun

Í minnihluta áliti Kristrúnar er einnig tekið undir athugasemdir fjármálaráðs þar sem lýst er yfir áhyggjum af fjárfestingarstiginu í hagkerfinu á næstu árum. Útlit sé fyrir að það sé orðið varanlega lægra en það var fyrst eftir aldamót og að fjármunarstofninn hér á landi sé lægri en í flestum þeim löndum sem við berum okkar saman við.

„Mikilvægt er að gengið sé ekki um of á eignahlið efnahagsreiknings hins opinbera með vanfjárfestingu og ljóst sé að þörf sé til staðar fyrir uppbyggingu og viðhald víða. Þó að stjórnarsáttmáli feli í sér ýmis fyrirheit um uppbyggingu og fjárfestingarverkefni þá virðast þau ekki endurspeglast með skýrum hætti í fjármálastefnunni,“ segir Kristrún.

Þá bendir hún á að í máli fjármálaráðs hafi komið fram að ekki hafi tekist vel til í gegnum tíðina að nota fjárfestingar sem sveiflujöfnun í hagkerfinu. Verkefni færu hægt af stað og hættan sú að þegar loks fer að bera á fjárfestingarátaki sé hagkerfið farið á fullt.

Þannig ætti að gefast svigrúm til uppbyggingar eftir áralangt tímabil vanfjárfestingar, en að sama skapi koma í veg fyrir að innviðafjárfestingar og grunnuppbygging víki á tímum samdráttar í hagkerfinu.

Að mati Kristrúnar sé þess vegna ástæða til að íhuga alvarlega að endurskoða lög um opinber fjármál eins og þau snúi að fjárfestingu. Bendir hún á að Evrópusambandið sé nú að skoða svonefnda „gullna reglu“ í þeim efnum þar sem hugmyndin er að aðskilja fjárfestingar frá útreikningum um skulda- og afkomureglur ríkjanna.

„Þannig ætti að gefast svigrúm til uppbyggingar eftir áralangt tímabil vanfjárfestingar, en að sama skapi koma í veg fyrir að innviðafjárfestingar og grunnuppbygging víki á tímum samdráttar í hagkerfinu,“ segir í áliti Kristrúnar. Með þeirri leið mætti losna undan þeirri hugmynd að fjárfesting sé gott hagstjórnartæki í hagsveiflum í ljósi hve seigfljótandi hún er.

Hún bendir á að undir lok þessa kjörtímabils falli aftur í gildi fjármálareglurnar sem gætu brostið á með „talsverðum þunga“ og því bitnað á opinberri fjárfestingu. Að mati Kristrúnar ætti að ráðast í alvöru skoðun á svipaðri gullinni reglu hér á landi og verið er að skoða í Evrópusambandinu.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans jókst fjárfesting hins opinbera um 14,2 prósent sem hlutfall af landsframleiðslu í fyrra. Á þessu ári er gert ráð fyrir að fjárfestingin aukist um rúmlega 5 prósent en hún muni síðan dragast saman á árunum 2023 og 2024 um annars vegar 6 prósent af landsframleiðslu og hins vegar um 4,5 prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×