Handbolti

Bjarki Már til Veszprém

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár.
Bjarki Már Elísson hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár. Getty/Sanjin Strukic

Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, hefur skrifað undir tveggja ára samning við ungverska stórliðið Veszprém samkvæmt heimildum íþróttadeildar.

Bjarki kemur til Veszprém frá Lemgo í sumar. Hann hefur leikið með Lemgo undanfarin þrjú tímabil. Bjarki varð markakóngur þýsku úrvalsdeildarinnar á fyrsta tímabili sínu með Lemgo og bikarmeistari með liðinu á síðasta tímabili.

Hjá Veszprém mun Bjarki koma í stað Norður-Makedóníumannsins Dejans Manaskov sem er á förum frá félaginu.

Veszprém er langsigursælasta lið Ungverjalands. Liðið hefur 26 sinnum orðið ungverskur meistari og 28 sinnum ungverskur bikarmeistari. Veszprém hefur tvisvar sinnum unnið Evrópukeppni bikarhafa en aldrei Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að hafa oft verið nálægt því. Þá hefur Veszprém fjórum sinnum unnið SEHA-deildina sem er eins konar Meistaradeild Austur-Evrópu.

Bjarki verður annar Íslendingurinn til að spila með Veszprém. Aron Pálmarsson lék með liðinu á árunum 2015-17.

Veszprém er í 2. sæti ungversku úrvalsdeildarinnar með 27 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Pick Szeged en á tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×