Innherji

Einingakostnaður Icelandair talsvert hærri en spá félagsins fyrir útboðið

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Icelandair flutti hátt í 1,5 milljónir farþega í fyrra. 
Icelandair flutti hátt í 1,5 milljónir farþega í fyrra.  vísir/vilhelm

Nokkrar af helstu lykiltölunum í ársuppgjöri Icelandair Group voru undir þeim markmiðum sem sett voru fram í fjárfestakynningunni sem flugfélagið útbjó fyrir hlutafjárútboðið 2020. Einingakostnaður félagsins, helsti mælikvarðinn á samkeppnishæfni flugfélaga, reyndist 15 prósentum hærri en spá.

Eftir viðamikla endurskipulagningu, sem fól í sér samninga við lánveitendur, leigusala, flugstéttir, stjórnvöld og aðra haghafa, efndi Icelandair til hlutafjárútboðs í september 2020. Útboðið gekk vonum framar en flugfélagið náði að safna 23 milljörðum króna og jafnframt fjölga hluthöfum í þúsundatali.

Í aðdraganda útboðsins birti Icelandair ýtarlega fjárfestakynningu þar sem félagið gerði meðal annars grein fyrir rekstrarmarkmiðum sínum til loka árs 2024. Nú þegar fyrsta heila rekstrarárið eftir hlutafjárútboðið er liðið tók Innherji saman helstu rekstrarmarkmiðin fyrir árið 2021 og bar þau saman niðurstöðurnar í ársuppgjöri Icelandair.

Tveir lykilmælikvarðar í rekstri flugfélaga eru annars vegar einingatekjur (RASK) og hins vegar einingakostnaður (CASK).

Icelandair gerði sér vonir um að einingatekjur, sem höfðu farið lækkandi til ársins 2018 þegar þær námu 6,3 sentum, myndu hækka í 6,9 sent á árinu 2021. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, útlistaði helstu ástæðurnar í samtali við Túrista í aðdraganda útboðsins.

„Við teljum líklegt að flest flugfélög muni einbeita sér að því að styrkja „hub starfsemi“ sína næstu árin. Þetta mun valda færri beinum flugum á N-Atlantshafsmarkaðnum sem mun gera „one-stop“ vöru okkar, í gegnum Ísland, mjög álitlega og þar með hækka RASK,“ sagði Bogi.

Þá benti hann einnig á að fjárfesting í mannafla og hugbúnaði á sviði tekjustýringar hefði skilað skýrum bata fyrir heimsfaraldurinn og einnig væri ætlunin að fá inn meiri þóknanir fyrir sölu á þjónustu þriðja aðila, svo sem bókunum á hótelherbergjum. Í ársuppgjöri Icelandair kemur fram að einingatekjur hafi verið 6,7 sent, lítillega undir markmiði flugfélagsins.

Ekki er hægt að segja það sama um einingakostnað sem er langt yfir fyrri markmiðum Icelandair. Hann nam 9,2 sentum í fyrra en flugfélagið hafði bundið vonir við að sveigjanlegri kjarasamningar, aukið vinnuframlagi áhafna og aðrar hagræðingaraðgerðir myndu ná einingakostnaði niður í 8 sent. Einingakostnaður reyndist því 15 prósentum hærri en spá félagsins.

Icelandair Group gerði ráð fyrir að rekstrartekjur samstæðunnar myndu nema samtals 637 milljónum Bandaríkjadala á árinu 2021 en þegar upp var staðið námu rekstrartekjur ársins um 585 milljónum dala. Tekjurnar voru því um 52 milljónum dala lægri eða sem nemur um 6,5 milljörðum króna.

Sama gildir um EBIT, sem er rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði og skatta. Flugfélagið gerði sér vonir um að EBIT yrði neikvætt um 43 milljónir dala en niðurstaðan var að endingu neikvæð um 137 milljónir. Mismunurinn á markmiðum félagsins og endanlegri niðurstöðu nam því 94 milljónum dala, jafnvirði um 11,7 milljarða króna.

Icelandair flutti hátt í 1,5 milljónir farþega í millilanda- og innanlandsflugi á síðasta ári og var fjöldinn umfram spá félagsins sem hljóðaði upp á 1,4 milljónir farþega. Framboð var einnig umfram væntingar en framboðnir sætiskílómetrar – sætafjöldi í hverri ferð sem margfaldaður er með heildarvegalengd ferðar í kílómetrum – námu 5,9 milljörðum í fyrra samanborið við væntingar um 5 milljarða.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×